Harmljóð spámannsins

7Þú blekktir mig, Drottinn, og ég lét blekkjast,
þú tókst mig tökum og barst hærri hlut.
Ég verð sífellt að athlægi,
allir hæða mig.
8Í hvert skipti sem ég tala verð ég að hrópa
og verð að kalla: „Ofbeldi og kúgun.“
Því að orð Drottins varð mér til skammar
og skapraunar allan daginn.
9Ef ég sagði: „Ég vil ekki hugsa um hann lengur
og ekki tala í hans nafni,“
fannst mér eldur loga í hjarta mér,
brenna í beinum mínum.
Ég örmagnaðist við áreynsluna,
hún varð mér um megn.
10Ég hef heyrt baktal fjöldans:
„Skelfing hvarvetna.
Kærið hann, vér skulum kæra hann.“
Allir nánir vinir mínir bíða þess að ég hrasi:
„Ef til vill lætur hann blekkjast
svo að vér getum yfirbugað hann
og hefnt vor á honum.“
11En Drottinn stendur með mér eins og voldug hetja,
þess vegna hrasa þeir sem ofsækja mig og sigra ekki.
Þeir gera sjálfum sér hneisu því að þeir erfiða án árangurs,
baka sér ævarandi smán sem aldrei gleymist.
12Drottinn hersveitanna, þú sem prófar hinn réttláta,
þú sem sérð nýrun og hjartað,
láttu mig sjá hefnd þína á þeim.
Þér fel ég málstað minn.
13Lofsyngið Drottni, vegsamið Drottin
því að hann frelsar líf hins snauða
úr greipum illvirkjanna.
14Bölvaður sé dagurinn þegar ég fæddist.
Dagurinn, sem móðir mín ól mig,
sé ekki blessaður.
15Bölvaður sé maðurinn
sem færði föður mínum gleðitíðindin:
„Þér er fæddur sonur,“
og gladdi hann með því stórlega.
16Fyrir þessum manni fari eins og borgunum
sem Drottinn eyddi vægðarlaust:
Hann heyri neyðaróp að morgni
og heróp um hádegi
17því að hann eyddi mér ekki í móðurkviði
svo að móðir mín yrði mér gröf
og móðurlíf hennar ævinlega þungað.
18Hvers vegna þurfti ég að koma úr skauti móður minnar
til þess að sjá mæðu og andstreymi
og enda ævidaga mína í smán?