19. kafli

10 Síðan skaltu brjóta krúsina fyrir augum þeirra sem fara með þér 11 og segja við þá: Svo segir Drottinn hersveitanna: Ég brýt þessa þjóð og þessa borg eins og þegar leirker er brotið svo að það verði ekki gert heilt aftur. Í Tófet verða svo margir jarðaðir að ekkert rúm verður þar til að grafa fleiri.[ 12 Þannig mun ég fara með þennan stað og íbúa hans, segir Drottinn, svo að þessi borg verði eins og Tófet. 13 Húsin í Jerúsalem og hús Júdakonunga skulu verða óhrein eins og þessi staður, Tófet, öll húsin þar sem öllum himinsins her hafa verið færðar reykelsisfórnir á þökunum og öðrum guðum dreypifórnir.
14 Þegar Jeremía kom frá Tófet þangað sem Drottinn hafði sent hann til að flytja boðskap sinn tók hann sér stöðu í forgarði húss Drottins og ávarpaði allan söfnuðinn:
15 Svo segir Drottinn hersveitanna, Ísraels Guð: Ég sendi alla þá ógæfu, sem ég hef hótað, yfir þessa borg og borgirnar, sem henni heyra til, vegna þess að íbúarnir hafa þverskallast við og ekki hlýtt á orð mín.

20. kafli

Jeremía húðstrýktur

1 Pashúr Immersson prestur, sem var yfirumsjónarmaður í húsi Drottins, heyrði Jeremía flytja þessa ræðu. 2 Hann lét því húðstrýkja Jeremía spámann og setja hann í gapastokkinn sem var í efra Benjamínshliðinu við hús Drottins. 3 Þegar Pashúr sleppti Jeremía úr gapastokknum morguninn eftir sagði Jeremía við hann: „Drottinn nefnir þig ekki lengur Pashúr heldur Skelfingu hvarvetna. 4 Því að svo segir Drottinn: Ég geri þig að skelfingu fyrir sjálfan þig og alla vini þína. Þeir munu falla fyrir sverði fjandmanna sinna og þú munt horfa á það með eigin augum. Ég mun selja allt Júda í hendur konungsins í Babýlon. Hann mun flytja íbúana í útlegð til Babýlonar og höggva þá með sverði. 5 Ég framsel allan auð þessarar borgar, allar eignir hennar, alla dýrgripi hennar og alla fjársjóði Júdakonunga í hendur fjandmanna þeirra. Þeir munu taka það herfangi og flytja til Babýlonar. 6 En þú, Pashúr, ferð í útlegð ásamt öllum sem búa í húsi þínu. Þú ferð til Babýlonar þar sem þú deyrð og verður grafinn, þú og allir vinir þínir sem þú hefur boðað lygi.“