18. kafli

Tilræði við spámanninn

18 Þeir sögðu: „Komið, vér skulum brugga ráð gegn Jeremía því að ekki brestur prestinn kenningu, spekinginn ráð né spámanninn orð. Komið, vér skulum ráðast á hann með hans eigin orðum og ekki hlusta á neitt sem hann segir.“
19Drottinn, fylgstu með mér
og hlustaðu á tal andstæðinga minna.
20Má gjalda gott með illu?
Því að þeir hafa grafið mér gröf.
Minnstu þess að ég hef staðið frammi fyrir þér
til að tala máli þeirra
og snúa heift þinni frá þeim.
21Ofurseldu því syni þeirra hungrinu
og gefðu þá sverðinu á vald,
gerðu konur þeirra barnlausar og ekkjur,
eiginmennirnir farist úr drepsótt
og æskumenn þeirra falli fyrir sverði í orrustu.
22 Láttu neyðaróp heyrast úr húsum þeirra
þegar þú sendir ránsflokka gegn þeim að óvörum
því að þeir hafa grafið gryfju til að veiða mig í
og lagt snörur fyrir fætur mína.
23 En þú, Drottinn, veist um öll þeirra fjörráð gegn mér.
Fyrirgefðu ekki glæp þeirra,
afmáðu ekki synd þeirra.
Láttu þá hrasa frammi fyrir augliti þínu,
hafðu afskipti af þeim á meðan þú ert reiður.

19. kafli

Fall Jerúsalem sagt fyrir

1 Svo sagði Drottinn:
Farðu og kauptu leirkrús og hafðu með þér nokkra af öldungum þjóðarinnar og nokkra helstu prestana. 2 Gakktu síðan út í Hinnomssonardal sem er við Leirbrotahliðið. Þar skaltu kunngjöra þau orð sem ég flyt þér 3 og segja: Heyrið orð Drottins, Júdakonungar og Jerúsalembúar. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Nú sendi ég þvílíkt böl yfir þennan stað að gjalla mun í eyrum allra þeirra sem um það heyra. 4 Þetta geri ég af því að þér hafið svikið mig og gert mér þennan stað framandi með því að færa þar reykelsisfórnir öðrum guðum sem hvorki þér sjálfir, feður yðar né Júdakonungar höfðu áður þekkt. Þeir hafa fyllt þennan stað af saklausu blóði. 5 Þeir byggðu fórnarhæðir til að færa Baal þar syni sína að brennifórn. Það hef ég aldrei boðið og aldrei nefnt, það hefur aldrei komið mér í hug.
6 Því skulu þeir dagar koma, segir Drottinn, að þessi staður verður ekki lengur nefndur Tófet eða Hinnomssonardalur heldur Drápsdalur. 7 Ég mun spilla ráðagerð Júdamanna og Jerúsalembúa á þessum stað. Ég mun fella þá með sverði frammi fyrir fjandmönnum sínum, með hendi þeirra sem sitja um líf þeirra. Ég mun gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar lík þeirra að æti. 8 Ég mun gera þessa borg að stað sem menn hryllir við og þeir hæðast að.[ Hvern sem á leið um hana mun hrylla við og hann hæðast að henni vegna allra þeirra áfalla sem hún hefur orðið fyrir. 9 Ég mun láta þá eta hold sona sinna og dætra. Þeir munu eta hold hver annars í þeirri neyð og þrengingu sem fjandmenn þeirra og þeir sem sitja um líf þeirra munu valda þeim.