Jeremía og leirkerasmiðurinn
1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 2 Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín.
3 Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. 4 Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best.
5 Þá kom orð Drottins til mín: 6 Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.
7 Stundum hóta ég einhverri þjóð eða konungsríki að uppræta það, brjóta það niður eða eyða því. 8En hverfi þessi þjóð, sem ég hef hótað, frá illri breytni sinni iðrast ég þeirrar ógæfu sem ég hafði ákveðið að senda yfir hana.
9 Stundum heiti ég einhverri þjóð eða konungsríki að endurreisa það eða gróðursetja 10 en geri hún það sem illt er í augum mínum án þess að hlýða boðum mínum iðrast ég hins góða sem ég hafði heitið að gera henni.
11 Segðu nú við Júdamenn og Jerúsalembúa: Svo segir Drottinn: Ég bý yður[ ógæfu og brugga ráð gegn yður. Hver og einn hverfi nú frá sinni illu breytni og snúi til betri vegar og góðrar breytni. 12 En þeir munu svara: Það er til einskis. Vér fylgjum vorum eigin hugmyndum og sérhver mun breyta eftir þverúð síns vonda hjarta.
Refsing fyrir svik við Drottin
13Þess vegna segir Drottinn:
Spyrjið á meðal þjóðanna
hver hafi heyrt annað eins.
Mærin Ísrael hefur unnið ódæði.
14Hverfur grjótið af sléttunni,
snjórinn af Líbanonstindum?
Þorna sírennandi lækir,
niðandi lindir?
15Þjóð mín hefur gleymt mér,
hún fórnar reykelsi fánýtum goðum
sem hafa leitt hana í hrösun
á gömlu götunum
inn á óruddar slóðir.
16Þeir gera land sitt að skelfilegum stað
sem sífellt er hæðst að,
hver sem fer þar um
fyllist hryllingi og hristir höfuðið.
17Eins og austanvindur
mun ég tvístra þeim fyrir fjandmönnum þeirra,
ég mun snúa í þá bakinu
en ekki andlitinu
á glötunardegi þeirra.