14Lækna mig, Drottinn, svo að ég verði heill,
hjálpa mér svo að ég bjargist
því að þú ert lofsöngur minn.
15Nú spyrja menn mig:
„Hvar er orð Drottins? Nú ætti það að rætast.“
16Ég hef hvorki þrábeðið þig um ógæfu
né óskað eftir óheilladeginum.
Þú veist sjálfur hvað varir mínar hafa sagt,
það liggur ljóst fyrir augliti þínu.
17Vertu ekki ógnvaldur minn,
þú sem ert athvarf mitt á óheilladeginum.
18Ofsækjendur mínir skulu smánaðir
en ég verð ekki smánaður,
þeir skulu skelfast
en ég skelfist ekki.
Sendu óheilladaginn yfir þá,
brjóttu þá niður,
brjóttu þá niður enn og aftur.

Hvíldardagsboð

19 Drottinn sagði við mig: Farðu og taktu þér stöðu í hliði, Þjóðhliðinu, sem Júdakonungar fara um þegar þeir koma heim eða fara í hernað, og í öllum borgarhliðum Jerúsalem. 20 Segðu við borgarbúa: „Hlýðið á orð Drottins, Júdakonungar, allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar sem komið inn um þessi hlið. 21 Svo segir Drottinn: Gætið yðar, líf yðar liggur við. Berið enga byrði á hvíldardegi og flytjið ekkert inn um hlið Jerúsalem. 22 Berið engar byrðar úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk. Haldið hvíldardaginn heilagan eins og ég bauð feðrum yðar.“
23 En þeir gáfu engan gaum að því og lögðu ekki við hlustir heldur þverskölluðust og vildu hvorki hlýða né láta sér segjast.
24 En ef þér hlýðið á mig með athygli, segir Drottinn, og flytjið ekkert inn um hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hann heilagan með því að vinna ekkert verk, 25 þá munu konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, koma inn um hlið þessarar borgar. Þeir koma akandi í vögnum og ríðandi á hestum, þeir sjálfir og hirðmenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar. Þá verður þessi borg ævinlega í byggð. 26 Þá munu koma menn frá borgunum í Júda og úr umhverfi Jerúsalem, frá landi Benjamíns og af láglendinu, frá fjalllendinu og Suðurlandinu. Þeir munu hafa með sér brennifórn, sláturfórn, kornfórn og reykelsi og færa að þakkarfórn í húsi Drottins.
27 En ef þér hlýðið ekki á boð mitt að halda hvíldardaginn heilagan með því að bera engar byrðar um hlið Jerúsalem á hvíldardegi þá kveiki ég í hliðum Jerúsalem og eldurinn mun gleypa hallir Jerúsalem og ekki verða slökktur.