12Verður járn mölbrotið, járn að norðan, og eir?
13Ég framsel auð þinn og fjársjóði sem herfang,
það er endurgjald fyrir allar syndir þínar
sem þú hefur drýgt um allt land þitt.
14Ég geri þig að þræli fjandmanna þinna,
í landi sem þú þekkir ekki,
því að reiði mín hefur blossað upp,
hún brennur gegn yður.
15Þú veist það, Drottinn,
minnstu mín og taktu mig að þér.
Hefndu mín á þeim sem ofsækja mig.
Sviptu mér ekki í burtu vegna langlundargeðs þíns,
játaðu að ég þoli smán þín vegna.
16Þegar orð þín komu gleypti ég þau,
orð þín urðu gleði mín.
Hjarta mitt fagnaði
því að ég er kenndur við þig,
Drottinn, Guð hersveitanna.
17Ég sit ekki og gleðst í hópi þeirra sem fagna.
Ég sit einn því að hönd þín hvílir þungt á mér
og þú hefur fyllt mig reiði þinni.
18Hvers vegna er þjáning mín ævarandi,
sár mitt svo illkynjað
að ekki verður grætt?
Þú ert orðinn eins og vatnslaus farvegur,
svikult vatnsból.
19Þess vegna segir Drottinn:
Viljir þú snúa við sný ég þér
svo að þú getir aftur þjónað mér.
Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg
skaltu vera munnur minn.
Þá leita menn til þín
en þú mátt ekki leita til þeirra.
20Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg
til að verjast þessu fólki.
Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig
því að ég er með þér,
ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn.
21Ég bjarga þér úr höndum vondra manna
og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.