23 … Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. 24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Ég hef sigrað heiminn

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. 26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður 27 því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. 28 Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“
29 Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. 30 Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“