13. kafli

22 Ef þú hugsar með sjálfri þér:
Hvers vegna hefur allt þetta dunið á mér?
skaltu vita að vegna mikillar syndar þinnar
hefur pilsfaldi þínum verið lyft
og þér nauðgað.
23 Getur Núbíumaður breytt hörundslit sínum
eða pardusdýr blettum sínum?
Þá getið þér líka gert gott
sem hafið vanist að gera illt.
24 Ég mun því dreifa yður eins og stráum
sem fjúka undan eyðimerkurvindinum.
25 Það er hlutskipti þitt,
launin sem ég hef skammtað þér, segir Drottinn,
af því að þú gleymdir mér
en treystir lygum.
26 Nú lyfti ég einnig pilsfaldi þínum yfir höfuð þér
svo að blygðun þín verði sýnileg.
27 hjúskaparbrot þín, lostavein
og blygðunarlaus hórdómur.
Ég hef séð andstyggilega hegðun þína
á hæðunum og á sléttunum.
Vei þér, Jerúsalem, ef þú hreinsar þig ekki.
Hve lengi enn mun þetta vara?

14. kafli

Þurrkurinn mikli

1Orð Drottins, sem kom til Jeremía, um þurrkinn mikla.
2Júda skrælnar af þurrki,
borgir hennar hrörna,
íbúarnir syrgja, beygðir til jarðar,
harmakvein stígur upp frá Jerúsalem.
3Höfðingjarnir senda þjóna sína eftir vatni.
Þegar þeir koma að brunnunum
finna þeir ekkert vatn.
Þeir snúa heim með tómar krukkur,
vonsviknir og skömmustulegir og hylja höfuð sín.
4Jarðvegurinn er sprunginn
því að ekkert hefur rignt í landinu.
Bændurnir eru því vonsviknir, þeir hylja höfuð sitt.
5Jafnvel hindin í haganum
yfirgefur nýborinn kálf
því að hvergi sést stingandi strá.
6Villiasnarnir standa á nöktum hæðum,
þeir grípa andann á lofti eins og sjakalar,
augu þeirra daprast
því að hvergi er beit að hafa.
7Þó að syndir vorar vitni gegn oss,
láttu samt til þín taka vegna nafns þíns, Drottinn.
Svik vor eru margvísleg,
vér höfum syndgað gegn þér.
8Þú, von Ísraels,
frelsari hans á neyðartímum.
Hvers vegna ertu eins og aðkomumaður í landinu,
eins og ferðamaður sem tjaldar til einnar nætur?
9Hvers vegna ertu eins og ruglaður maður,
eins og hermaður sem ekki getur sigrað?
Þú ert þó sjálfur á meðal vor,
Drottinn, vér erum kenndir við þig, [
yfirgef oss ekki.