11. kafli

Röng fórnarþjónusta

15Hvað vill ástvinur minn í hús mitt?
Hann hefur svikið mig.
Geta loforð og heilagt fórnarkjöt
bægt frá þér bölinu
svo að þú getir fagnað?
16Drottinn kallaði þig ólífutré,
laufgað og fagurt.
Nú kviknar eldur í laufi þess með miklum gný
og eyðir greinum þess.

17 Drottinn hersveitanna, sem gróðursetti þig, ógnaði þér með ógæfu vegna þeirrar illsku sem kynkvíslir Ísraels og Júda sýndu þegar þær vöktu reiði mína með því að kveikja fórnareld fyrir Baal.

Jeremía í lífshættu í Anatót

18 Drottinn skýrði mér frá því svo að ég vissi það. Þú gerðir mér ljóst hvað þeir höfðu fyrir stafni. 19Sjálfur var ég eins og grunlaust lamb sem er leitt til slátrunar. Ég skildi ekki að þeir brugguðu ráð gegn mér: „Vér skulum eyða trénu í blóma þess. Vér skulum eyða honum úr landi lifenda svo að nafns hans verði ekki minnst framar.“
20Drottinn hersveitanna, réttláti dómari,
þú sem rannsakar hjarta og nýru,
sýndu mér hefnd þína á þeim.
Ég fel þér málefni mitt.

21 Því boðar Drottinn þetta gegn Anatótbúum sem sækjast eftir lífi mínu og segja: „Þú mátt ekki starfa sem spámaður í nafni Drottins, þá muntu deyja fyrir hendi vorri.“ 22 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna: Nú dreg ég yður til ábyrgðar. Ungir menn munu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur munu deyja úr hungri. 23 Enginn þeirra verður eftir því að ég sendi ógæfu yfir Anatótbúa árið sem þeir verða dregnir til ábyrgðar.

12. kafli

1Þú ert réttlátur, Drottinn, þegar ég deili við þig,
samt vil ég ræða við þig um dóma þína.
Hvers vegna njóta ranglátir velgengni,
af hverju lifa svikarar óhultir?
2Þú gróðursettir þá og þeir skjóta rótum,
dafna og bera ávöxt.
Þú ert nálægur vörum þeirra
en fjarlægur huga þeirra. [
3Drottinn, þú þekkir mig og sérð mig,
þú hefur rannsakað hjarta mitt.
Flokkaðu þá eins og fé til slátrunar,
helgaðu þá aftökudeginum.
4Hve lengi á landið að syrgja
og allar jurtir merkurinnar að skrælna?
Búfé og fuglar farast
vegna illsku landsbúa
því að þeir hugsa: „Hann sér ekki afdrif vor.“
5Ef þú mæðist af kapphlaupi við fótgangandi menn,
hvernig ætlarðu þá að keppa við hesta?
Ef þú ert aðeins öruggur um þig í friðuðu landi,
hvernig ætlarðu þá að komast af í kjarrinu við Jórdan?
6Jafnvel bræður þínir og fjölskylda bregðast þér,
þeir kalla á eftir þér fullum hálsi.
Treystu þeim ekki þótt þeir tali hlýlega við þig.