Tveir trúir samverkamenn
19 En ég vona að Drottinn Jesús geri mér bráðum fært að senda Tímóteus til ykkar til þess að mér verði einnig hughægra þá er ég fæ að vita um hagi ykkar. 20 Ég hef engan honum líkan sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi ykkar. – 21 Allir leita þess sem sjálfra þeirra er en ekki þess sem Krists Jesú er. – 22 En þið vitið hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum. 23 Ég vona að geta sent hann jafnskjótt og ég sé hvað um mig verður. 24 En ég ber það traust til Drottins að ég muni og bráðum koma sjálfur.
25 Ég taldi það og nauðsynlegt að senda til ykkar Epafrodítus, bróður minn, samverkamann og samherja, sem þið senduð til að annast um mig. 26 Hann hefur þráð ykkur öll og liðið illa út af því að þið höfðuð heyrt að hann hefði orðið sjúkur. 27 Já, sjúkur varð hann, að dauða kominn, en Guð miskunnaði honum og ekki einungis honum heldur og mér til þess að ég skyldi eigi hafa hryggð á hryggð ofan. 28 Þess vegna er mér enn hugleiknara að senda hann heim til þess að þið verðið aftur glöð er þið sjáið hann og mér verði hughægra. 29 Takið því á móti honum í nafni Drottins með miklum fögnuði og hafið slíka menn í heiðri. 30 Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp þá þjónustu sem þið gátuð ekki veitt mér.