1. kafli

27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið ykkur eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki ykkur eða ég er fjarverandi vil ég fá að heyra um ykkur að þið standið stöðug í einum anda, berjist með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið og 28 látið aldrei mótstöðumenn skelfa ykkur í neinu. Hugrekki ykkar er þeim merki frá Guði um glötun þeirra en um frelsun ykkar 29 því að Guð veitti ykkur þá náð, ekki einungis að trúa á Krist heldur og að þola þjáningar hans vegna. 30 Nú eigið þið í sömu baráttu sem þið sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.

2. kafli

Verið með sama hugarfari og Kristur

1 Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð 2 gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. 3 Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. 4 Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. 5 Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
6Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
7Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
8lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
9Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
10til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
11og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Eins og ljós í heiminum

12 Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. 13 Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.
14 Gerið allt án þess að mögla og hika 15 til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. 16 Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.
17 Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. 18 Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.