10En Drottinn er hinn sanni Guð,
hann er lifandi Guð og eilífur konungur.
Jörðin skelfur fyrir heift hans
og þjóðirnar standast ekki reiði hans.
11Um þá skuluð þér segja:
Guðum, sem hvorki hafa gert himin né jörð,
verður eytt af jörðinni og undan himninum.
12Sá sem skapaði jörðina með krafti sínum,
lagði grunn heimsins með speki sinni
og þandi út himininn með þekkingu sinni.
13Þegar hann lætur rödd sína þruma
heyrist gnýr vatna í himninum,
hann sendir ský upp frá endimörkum jarðar
og lætur eldingar leiftra í regninu,
hann hleypir vindinum út úr geymslum hans.
14Sérhver maður verður skilningsvana glópur,
hver gullsmiður mun skammast sín fyrir guðamyndirnar
því að það sem hann steypir er blekking,
þær hafa ekki lífsanda.
15Þær eru aðeins vindgustur,
hlægilegar og einskis nýtar.
Þegar tími uppgjörsins kemur farast þær.
16Hann sem er hlutskipti Jakobs
er ekki líkur þeim
því að hann hefur skapað allt
og Ísrael er ættkvíslin sem er eign hans,
Drottinn hersveitanna er nafn hans.
Útlegð yfirvofandi
17Taktu föggur þínar upp af jörðinni,
þú sem býrð í umsetinni borg.
18Því að Drottinn segir:
Í þetta skipti varpa ég íbúum landsins í burtu.
Ég mun þrengja svo mjög að þeim
að þeir finni mig.
19Vei mér, þjakaður er ég,
sár mitt er ólæknandi.
Ég hugsaði: „Þetta er sjúkdómur,
ég skal bera hann.“
20Tjald mitt hefur verið jafnað við jörðu,
öll stögin eru slitin,
börn mín hafa yfirgefið mig,
þau eru hér ekki lengur.
Enginn reisir tjald mitt aftur
og þenur út tjalddúkinn.
21Þar sem hirðarnir voru heimskingjar
og leituðu ekki til Drottins
lánaðist þeim ekkert
og öll hjörð þeirra tvístraðist.
22 Hlustið. Fréttir voru að berast.
Mikill gnýr berst frá landinu í norðri,
borgirnar í Júda verða jafnaðar við jörð,
þær verða sjakalabæli.
Bæn Jeremía
23 Ég veit, Drottinn,
að enginn maður ræður för sinni,
enginn stýrir skrefum sínum á göngunni.
24 Refsa mér, Drottinn, en þó í hófi,
ekki í reiði, svo að þú upprætir mig ekki.
25 Úthelltu reiði þinni yfir þjóðirnar
sem þekkja þig ekki
og yfir þær kynkvíslir
sem ekki ákalla nafn þitt
því að þær hafa gleypt Jakob og eytt honum
og lagt beitilönd hans í auðn.