9Hefjið grát og kvein yfir fjöllunum
og harmljóð yfir beitilöndunum í auðninni
því að þau eru sviðin, enginn fer þar um,
baul hjarðanna heyrist þar ekki lengur.
Fuglar himinsins og búsmalinn
er allur flúinn og horfinn.
10Ég geri Jerúsalem að rúst,
bæli handa sjakölum.
Borgirnar í Júda geri ég að auðn
þar sem enginn býr.

11 Hver er svo vitur að hann skilji þetta? Hverjum hefur munnur Drottins sagt þetta svo að hann geti boðað það? Hvers vegna er landið lagt í eyði? Hvers vegna er það sviðið eins og eyðimörkin þar sem enginn fer um?
12 Drottinn svarar: Af því að þeir brutu lögin sem ég setti þeim. Þeir hlustuðu hvorki á boð mín né fylgdu þeim, 13 heldur fylgdu þeir þverúð eigin hjarta og eltu Baalana eins og feður þeirra höfðu kennt þeim.
14 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ég gef þessari þjóð malurt að eta og eitrað vatn að drekka. 15 Ég tvístra þeim meðal þjóða sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt og sendi sverðið á eftir þeim, þar til ég hef tortímt þeim. 16 Svo segir Drottinn hersveitanna: Áttið yður. Kallið á grátkonur, sækið kunnáttukonur. 17 Þær eiga að koma strax og hefja harmakvein yfir oss svo að augu vor fljóti í tárum og þau streymi af hvörmum vorum.
18Hlustið, harmakvein heyrist frá Síon:
Æ, vér erum hart leiknir.
Vér erum skammarlega niðurlægðir.
Vér verðum að yfirgefa landið,
höfum verið reknir úr húsum vorum.
19Já, hlýðið, konur, á orð Drottins,
eyru yðar nemi orðin af munni hans.
Kennið dætrum yðar harmljóð
og hver annarri sorgarkvæði.
20Dauðinn steig upp í glugga vorn,
hann kom inn í hallir vorar,
hann þrífur börnin af götunni,
unglingana af torgunum.
21Segðu: Svo segir Drottinn:
Lík manna liggja á jörðinni eins og mykja á velli,
eins og kornknippi aftan við sláttumann
og enginn tínir þau saman.