8. kafli

Harmljóð vegna þjóðarinnar

18Ég er yfirkominn af sorg,
hjarta mitt er þjakað.
19Hlustið. Kvein dótturinnar, þjóðar minnar,
heyrist um þvert og endilangt landið.
Er Drottinn ekki á Síon, er enginn konungur þar?
Hvers vegna vöktuð þér reiði mína
með skurðgoðum yðar, með framandi guðum?
20Kornuppskeran er liðin, ávaxtauppskeran á enda
en oss hefur ekki borist hjálp.
21Þar sem dóttirin, þjóð mín, er limlest
er ég niðurbrotinn,
ég syrgi, skelfingu lostinn.
22 Eru engin smyrsl til í Gíleað?
Er þar enginn læknir?
Hvers vegna hafa sár dótturinnar, þjóðar minnar, ekki gróið?
23 Ég vildi að höfuð mitt væri vatn,
augu mín táralind,
þá mundi ég gráta nótt og dag
yfir hinum föllnu af dótturinni, þjóð minni.

9. kafli

1Hefði ég gistihús fyrir ferðalanga í eyðimörkinni
gæti ég yfirgefið þjóð mína og farið frá þeim
því að þeir eru allir hórkarlar, hópur svikara.
2Þeir spenna tunguna eins og boga,
þeir halda völdum í landinu
með lygi, ekki með sannleika.
Þeir ganga frá einu illvirki til annars
en mig þekkja þeir ekki, segir Drottinn.
3Varið yður hver á öðrum
og treystið ekki bróður yðar.
Sérhver bróðir er fláráður
og sérhver vinur er rógberi.
4Hver og einn blekkir náunga sinn,
enginn segir sannleikann.
Þeir hafa vanið tungu sína á lygar.
Þeir gera illt og geta ekki hætt því:
5Kúgun leiðir til kúgunar, svik til svika.
Þeir vilja ekki þekkja mig, segir Drottinn.
6Þess vegna segir Drottinn hersveitanna:
Ég mun setja þá í deiglu og reyna þá.
Hvað annað get ég gert gegn illsku þeirra?
7Tunga þeirra er banvæn ör,
munnur þeirra fer með blekkingar.
Þeir heilsa kunningjum sínum vinsamlega
en í hjarta sínu sitja þeir á svikráðum við þá.
8Ætti ég ekki að refsa þeim fyrir það, segir Drottinn,
ætti ég ekki að hefna mín á annarri eins þjóð?