1 Þá, segir Drottinn, verða bein Júdakonunga, bein hirðmanna þeirra, bein presta og spámanna og Jerúsalembúa sótt í grafir þeirra. 2 Þeim verður dreift móti sólinni, tunglinu og öllum her himinsins sem þeir elskuðu, þjónuðu og eltu, sem þeir leituðu úrskurðar hjá og tilbáðu. Þau verða hvorki tínd saman né grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum. 3 Allir sem eftir verða af þessari vondu kynslóð munu kjósa dauðann fremur en lífið, allir sem eftir verða á þeim fjölmörgu stöðum sem ég hef hrakið þá til, segir Drottinn hersveitanna.

Synd og refsing

4Segðu því við þá:
Svo segir Drottinn:
Hvort falla menn og standa ekki upp aftur?
Snýr sá ekki við sem villist?
5Hvers vegna hefur þetta fólk snúið baki við mér
fyrir fullt og allt?
Hvers vegna heldur það fast við svikin
og neitar að hverfa aftur til mín?
6Ég lagði við hlustir og heyrði:
Þeir fara með lygi,
enginn iðrast illsku sinnar og spyr:
Hvað hef ég gert?
Allir æða áfram, hver sína leið
eins og hestur sem ryðst fram í orrustu.
7Jafnvel storkurinn í loftinu
þekkir sinn ákveðna tíma,
dúfan, svalan og tranan
snúa aftur á réttum tíma.
En þjóð mín þekkir ekki
hvers Drottinn krefst.