1 Bæn guðsmannsins Móse.
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
2Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
4Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
5Þú hrífur þau burt sem í svefni,
þau er að morgni eru sem gróandi gras.
6Að morgni blómgast það og grær,
að kvöldi fölnar það og visnar.
7Vér hverfum fyrir reiði þinni,
skelfumst bræði þína.
8Þú hefur sett þér fyrir sjónir misgjörðir vorar
og leyndar syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni,
ár vor líða sem andvarp.
10Ævidagar vorir eru sjötíu ár
og þegar best lætur áttatíu ár,
og dýrasta hnossið er mæða og hégómi,
því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11Hver skilur mátt reiði þinnar,
heift þína, svo að hann óttist þig?
12Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
13Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi?
Sýn þjónum þínum miskunn.
14Metta oss að morgni með miskunn þinni,
að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15Veit oss gleði í stað daga þeirra er þú lægðir oss,
ára þeirra er vér máttum illt þola.
16Sýn þjónum þínum dáðir þínar
og dýrð þína börnum þeirra.
17Gæska Drottins, Guðs vors, sé með oss,
blessa þú verk handa vorra.