Laun óhlýðninnar

16Svo segir Drottinn:
Nemið staðar við vegina og litist um,
spyrjið um gömlu göturnar,
hver sé hamingjuleiðin
og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld.
En þeir sögðu: „Vér viljum ekki fara hana.“
17Ég setti yfir yður varðmenn.
Hlustið á hornablásturinn.
En þeir sögðu: „Vér viljum ekki hlusta.“
18Heyrið því, þjóðir,
þú skalt vita, söfnuður,
hvað um þá verður.
19Heyr það, jörð.
Ég færi þessari þjóð ógæfu.
Það er ávöxtur þeirra eigin hugarfars
því að þeir hafa ekki hlustað á orð mín,
þeir hafa hafnað lögum mínum.
20Hvað á ég að gera við reykelsi frá Saba
eða góðan ilmreyr frá fjarlægu landi?
Brennifórnir yðar eru mér ekki þóknanlegar
og sláturfórnir yðar geðjast mér ekki.
21Þess vegna segir Drottinn:
Ég legg hrösunarhellu fyrir þessa þjóð
svo að þeir hrasi um hana,
feður og synir, grannar og vinir.

Enn um árás úr norðri

22 Svo segir Drottinn:
Þjóð ein kemur frá landi í norðri,
mikil þjóð heldur af stað frá endimörkum jarðar.
23 Þeir eru vopnaðir bogum og spjótum,
þeir eru grimmir og miskunnarlausir.
Háreysti þeirra er sem hafgnýr,
þeir koma ríðandi á hestum,
hver og einn búinn til bardaga gegn þér, dóttirin Síon.
24 Vér höfðum varla heyrt fréttina
þegar hendur vorar lömuðust,
skelfingin greip oss,
kvöl eins og konu í barnsnauð.
25 Farið ekki út á bersvæði,
gangið ekki um vegina
því að fjandmaðurinn er vopnaður sverði,
hættur ógna úr öllum áttum.
26 Dóttir mín, þjóð mín, gyrtu þig hærusekk,
veltu þér í ösku,
efndu til sorgarathafnar eins og eftir einkason,
syrgðu beisklega
því að eyðandinn kemur yfir oss í einu vetfangi.
27 Ég hef falið þér að kanna þjóð mína.
Þú átt að kynna þér og rannsaka lifnað þeirra.
28 Þeir eru allir forhertir uppreisnarmenn,
rógberar, eir og járn,
allir eru þeir afbrotamenn.
29 Smiðjubelgurinn másaði
en úr eldinum kom aðeins blý.
Sá sem bræddi, bræddi til einskis
því að þeir illu urðu ekki skildir frá.
30 Þeir kallast ógilt silfur
því að Drottinn hefur fellt þá úr gildi.