Orsök stríðsins
1Gangið um stræti Jerúsalem,
litist um, spyrjist fyrir,
leitið á torgunum hvort nokkur finnist,
hvort þar sé aðeins einn
sem stundar réttlæti og leitar sannleikans,
og þá mun ég fyrirgefa borginni, segir Drottinn.
2Þótt þeir segi: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir,“
sverja þeir meinsæri.
3Drottinn, leita augu þín ekki sannleikans?
Þú slóst þá en þá sveið ekki undan,
þú gerðir nærri út af við þá
en þeir létu sér ekki segjast.
Þeir þverskölluðust [
og vildu ekki snúa við. [
4Ég hugsaði: Þetta eru lítilmenni
sem hegða sér heimskulega
því að þau rata ekki veg Drottins,
þekkja ekki kröfur Guðs síns.
5Þá vil ég heldur fara til stórmennanna
og tala við þau
því að þau rata veg Drottins,
þekkja kröfur Guðs síns.
En þau höfðu öll sem eitt brotið af sér okið,
slitið fjötrana.
6Þess vegna drepur skógarljónið þau,
sléttuúlfurinn eyðir þeim,
pardusdýrið liggur í leyni við borgir þeirra,
hver sem út úr þeim fer
verður rifinn sundur
því að afbrot þeirra eru mörg,
svik þeirra mikil.
7Hvers vegna ætti ég að fyrirgefa þér?
Synir þínir hafa yfirgefið mig
og svarið við þá sem ekki eru guðir.
Ég mettaði þá en þeir hóruðust
og gistu vændishús.
8Þeir eru stríðaldir stóðhestar
og hvía hver að annars konu.
9Ætti ég ekki að refsa þeim fyrir það? segir Drottinn,
ætti ég ekki að hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?
10Farið upp í víngarðana og rífið þá niður
en gereyðið þeim ekki,
rífið burtu teinungana
því að þeir eru ekki eign Drottins.
11Íbúar Ísraels og íbúar Júda
hafa brugðist mér, segir Drottinn.
12Þeir hafa afneitað Drottni og sagt:
„Hann er ekkert.
Engin ógæfa kemur yfir oss,
vér munum hvorki sjá sverð né hungur.
13Spámennirnir eru loftið tómt,
orðið er ekki í munni þeirra,
það kemur þeim í koll.“