22 Þjóð mín er heimsk
og þekkir mig ekki.
Þeir eru fávís börn
sem ekkert skilja.
Þeir hafa vit til að gera illt
en kunna ekki gott að gera.

Sýn um endalok alls

23 Ég leit yfir jörðina
og hún var auð og tóm.
Ég leit til himins og þar var ekkert ljós.
24 Ég leit til fjallanna
og þau skulfu
og allir hólar nötruðu.
25 Ég litaðist um
en hvergi var mann að sjá
og allir fuglar himinsins flognir.
26 Ég litaðist um
og aldingarðarnir voru orðnir að eyðimörk
og allar borgirnar höfðu verið jafnaðar við jörðu
fyrir augliti Drottins, bálandi reiði hans.
27 Svo segir Drottinn:
Allt landið verður lagt í auðn,
þó mun ég ekki gereyða það.
28 Jörðin syrgir
og himinninn yfir henni myrkvast
því að ég hef sagt þetta og mig iðrar þess ekki,
ég hef ákveðið það og hætti ekki við.
29 Við gný riddara og bogmanna
flýja allir íbúar landsins,
menn skríða inn í kjarrið
og klifra upp kletta.
Sérhver borg er yfirgefin,
þar býr enginn maður.
30 En þú sem ert ofurseld eyðingunni,
hvað gerir þú?
Hvernig getur þú klæðst skarlati,
skreytt þig með gullskarti
og farðað augu þín?
Þú fegrar þig til einskis.
Þeir sem girntust þig snúa við þér baki,
þeir sitja um líf þitt.
31 Ég heyri vein eins og frá jóðsjúkri konu,
lík neyðarópum frumbyrju,
það eru óp dótturinnar Síonar
sem stendur á öndinni.
Hún teygir fram hendurnar:
Vei mér. Það er úti um mig.
Ég fell fyrir hendi morðingja.