11Á þeim tíma verður sagt við þessa þjóð og við Jerúsalem:
Glóandi vindur kemur af nöktum hæðum í eyðimörkinni
yfir dóttur þjóðar minnar,
ekki vindur til að sáldra korni eða hreinsa,
12heldur miklu öflugri vindur
sem kemur samkvæmt skipun minni.
Nú kveð ég sjálfur upp dóm yfir þeim.
13Sjá, óvinurinn kemur sem óveðursský,
stríðsvagnar hans líkjast hvirfilvindi,
hestarnir eru frárri en ernir.
Vei oss. Það er úti um oss.
14Hreinsaðu illskuna af hjarta þér, Jerúsalem,
svo að þú bjargist.
Hversu lengi eiga gerspilltar hugsanir
að búa í brjósti þér?
15Rödd hljómar frá Dan,
ófarir boðaðar frá Efraímsfjöllum.
16Kunngjörið þjóðunum,
boðið Jerúsalem:
Úr fjarlægu landi koma fjandmenn,
þeir hrópa heróp gegn borgunum í Júda.
17Þeir umkringja borgina eins og þeir sem vaka yfir akri
því að hún hefur boðið mér birginn, segir Drottinn.
18Hegðun þín og háttalag hefur leitt þetta yfir þig.
Það er þín eigin illska sem gerir þér lífið biturt
og gengur þér til hjarta.
19Ég kvelst, ég kvelst hið innra,
engist sundur og saman.
Hjartað hamast, berst í brjósti mér,
ég get ekki þagað
því að ég heyri lúðurhljóm og heróp
20Hrópað er: Hrun á hrun ofan,
því að herjað er á allt landið.
Tjöld mín eru eydd á svipstundu,
tjalddúkarnir í einu vetfangi.
21Hversu lengi þarf ég að horfa á gunnfána,
hlusta á lúðurhljóm?