1Ef þú snýrð aftur, Ísrael, segir Drottinn,
skaltu snúa aftur til mín.
Ef þú losar þig við viðurstyggilega guði þína
og ferð ekki lengur villur vega
þarftu ekki að flýja mig,
2ef þú sverð í einlægni, rétt og réttvíslega:
„Svo sannarlega sem Drottinn lifir,“
munu þjóðirnar njóta blessunar hans
og hrósa sér af honum.
3Því að svo segir Drottinn
við Júdamenn og Jerúsalembúa:
Brjótið nýtt land,
sáið ekki meðal þyrna.
4Umskerið yður fyrir Drottni,
fjarlægið yfirhúð hjartna yðar,
þér Júdamenn og Jerúsalembúar.
Annars brýst reiði mín út sem logandi eldur,
bál sem enginn getur slökkt,
sakir illra verka yðar.

Innrás úr norðri

5Boðið þetta í Júda, kunngjörið það í Jerúsalem,
þeytið hafurshorn í landinu,
hrópið fullum rómi og segið:
Safnist saman.
Vér hörfum inn í víggirtar borgirnar.
6Reisið hermerkið: Til Síonar.
Flýið, tefjið ekki.
Því að ég sendi mikið böl úr norðri, tortímingu.
7Ljónið er risið upp úr kjarrinu,
þjóðamorðinginn er lagður af stað.
Hann er farinn úr landi sínu
til að gera land þitt að auðn.
Borgir þínar verða lagðar í rúst, mannlausar.
8Gyrðist því hærusekk, grátið og kveinið
því að glóandi reiði Drottins er ekki horfin frá oss.
9Á þeim degi, segir Drottinn,
mun hugrekki konungsins
og kjarkur höfðingjanna bresta,
prestarnir verða agndofa af skelfingu,
spámennirnir stjarfir af ótta.
10Þeir segja: Æ, Drottinn Guð.
Illa blekktir þú þetta fólk og Jerúsalem
er þú sagðir: Yður mun farnast vel,
en vér erum með sverð reitt að hálsi.