Fyrirheit um heimför

14 Snúið aftur, svikulu synir, segir Drottinn, því að það er ég sem ríki[ yfir yður. Ég sæki yður, einn úr hverri borg, tvo úr hverri ætt og flyt yður til Síonar.
15 Ég mun fá yður hirða sem eru mér að skapi og þeir munu gæta yðar[ með skynsemi og hyggindum. 16 Þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu, segir Drottinn, verður ekki lengur talað um sáttmálsörk Drottins. Hún mun ekki koma neinum í hug, enginn mun minnast hennar, enginn sakna hennar og engin önnur verður gerð.
17 Á þeim tíma verður Jerúsalem nefnd „hásæti Drottins“ og allar þjóðir munu safnast saman vegna nafns Drottins í Jerúsalem og ekki framar fylgja þrjósku síns vonda hjarta. 18 Á þeim dögum munu Júdamenn sameinast Ísraelsmönnum og þeir munu koma sameinaðir frá landinu í norðri til landsins sem ég fékk feðrum yðar að erfðahlut.

Hjáguðadýrkun lýðs Guðs

19Ég hef sjálfur sagt:
Ég fæ þér stað á meðal sonanna
og gef þér unaðslegt land,
hina dýrlegustu arfleifð meðal þjóðanna.
Ég sagði: Kallaðu mig föður
og snúðu ekki baki við mér.
20En eins og kona verður ótrú,
þannig urðuð þér, Ísraelsmenn, mér ótrúir,
segir Drottinn.
21Hlustið. Á gróðurvana hæðunum heyrist grátur,
kveinstafir og harmatölur Ísraelsmanna
því að þeir hafa villst af leið
og gleymt Drottni, Guði sínum.
22 Snúið aftur, svikulu synir,
ég mun lækna sviksemi yðar.
Hér erum vér, vér komum til þín
því að þú ert Drottinn, Guð vor.
23 Sannarlega er það blekking sem heyrist á hæðunum,
hávaðinn frá fjöllunum,
sannarlega er hjálp Ísraels
hjá Drottni, Guði vorum.
24 En svívirðingin hefur gleypt auð feðra vorra,
allt frá æskudögum vorum,
sauði þeirra og nautpening,
syni þeirra og dætur.
25 Vér skulum leggjast niður í smán,
skömmin hylur oss,
því að vér höfum syndgað gegn Drottni, Guði vorum,
vér og feður vorir,
allt frá æskudögum vorum og fram á þennan dag
höfum vér ekki hlýtt boði Drottins, Guðs vors.