1. kafli
Hlutverk spámannsins
17En sjálfur skalt þú gyrða lendar þínar,
ganga fram og boða þeim allt sem ég býð þér.
Láttu ekki hugfallast frammi fyrir þeim,
ella svipti ég þig hugrekki fyrir augum þeirra.
18Í dag geri ég þig að víggirtri borg,
að járnsúlu, að virkisvegg úr eir
gegn konungunum í Júda
og höfðingjum þar,
gegn prestunum í Júda og stórbændunum.
19Þeir munu ráðast gegn þér
en ekki sigra þig
því að ég er með þér til að bjarga þér, segir Drottinn.
2. kafli
Ádeiluræður gegn Júda og Jerúsalem
Ótrú þjóð
1 Orð Drottins kom til mín:
2Far og hrópa til Jerúsalembúa:
Svo segir Drottinn:
Ég minnist enn æskutryggðar þinnar,
kærleika þíns er þú sem brúður
fylgdir mér í eyðimörkinni,
landi sem enginn getur ræktað.
3Ísrael var helgaður Drottni,
frumgróði uppskeru hans.
Allir sem neyttu einhvers af honum urðu sekir,
ógæfa kom yfir þá, segir Drottinn.
4Hlýðið á orð Drottins, þér sem eruð af ætt Jakobs
og allir ættbálkar Ísraels!
5Svo segir Drottinn:
Hvaða rangindi fundu feður yðar hjá mér,
fyrst þeir hurfu frá mér
og eltu fánýt goð
og urðu því sjálfir fánýtir?
6Þeir spurðu ekki: Hvar er Drottinn
sem leiddi oss frá Egyptalandi
og vísaði oss veg í eyðimörkinni,
um þurrt og sprungið land,
skrælnað og niðdimmt,
land sem enginn fer um
og enginn maður byggir?
7Ég leiddi yður inn í gjöfult land
svo að þér gætuð notið ávaxta þess og gæða.
En þegar þér komuð inn í land mitt
saurguðuð þér það
og gerðuð erfðaland mitt að viðurstyggð.
8Prestarnir spurðu ekki: „Hvar er Drottinn?“
Þeir sem gættu laganna þekktu mig ekki,
hirðarnir sviku mig,
spámennirnir spáðu í nafni Baals
og eltu fánýt goð.
9Þess vegna hlýt ég að ákæra yður, segir Drottinn
og ég hlýt að ákæra barnabörn yðar.