17 Ég minni ykkur, systkin,[ á að hafa gát á þeim sem vekja sundurþykki og tæla frá þeirri kenningu sem þið hafið numið. Sneiðið hjá þeim. 18 Slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. 19 En hlýðni ykkar er alkunn orðin. Því er ég glaður yfir ykkur og vil að þið séuð vitur í því sem gott er en fákunnandi í því sem illt er. 20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum ykkar.
Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með yður.[
21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa ykkur. 22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa ykkur í nafni Drottins. 23 Gajus, sem hýsir mig og allan söfnuðinn, biður að heilsa ykkur. Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa ykkur. 24 Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með yður. Amen.[
25 En einn hefur máttinn til þess að styrkja yður með fagnaðarerindi mínu, boðskap Jesú Krists. Þar opinberast leyndardómur sem var hulinn þögn um eilífar tíðir 26 en er nú opinber í spámannlegum ritningum og að boði hins eilífa Guðs kunngjörður öllum þjóðum að þær taki hann til sín og trúi. 27 Honum, einum alvitrum Guði, sé sakir Jesú Krists dýrðin um aldir alda. Amen.[