1 Etansmaskíl Esraíta.
2Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu
og kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns.
3Því að ég segi: Náð þín er traust að eilífu,
trúfesti þín grundvölluð á himni.
4Ég gerði sáttmála við minn útvalda,
vann Davíð þjóni mínum eið:
5Ég mun festa ætt þína í sessi að eilífu
og hásæti þitt reisi ég frá kyni til kyns. (Sela)
6Himnarnir lofa dásemdarverk þín, Drottinn,
og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7Því að hver er í upphæðum jafn Drottni
og hver af guðanna sonum [ er Drottni líkur?
8Guð er ógnvekjandi í hópi heilagra,
meiri og óttalegri öllum sem eru umhverfis hann.
9Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú?
Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín umlykur þig.
10Þú ríkir yfir ofstopa hafsins,
þú lægir rísandi öldurnar,
11þú knosaðir skrímslið Rahab til dauða
og tvístraðir óvinum þínum með voldugum armi.
12Þinn er himinninn, þín er jörðin,
þú grundvallaðir heiminn og allt sem í honum er.
13Norðrið og suðrið skapaðir þú,
Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14Armur þinn er máttugur, hönd þín sterk,
hægri hönd þín hátt upp hafin.
15Réttlæti og réttvísi eru stoðir hásætis þíns,
miskunn og trúfesti þjóna fyrir augliti þínu.
16Sæl er sú þjóð sem kann að hylla þig, Drottinn,
sem gengur í ljóma auglitis þíns,
17fagnar yfir nafni þínu hvern dag
og gleðst yfir réttlæti þínu.
18Því að þú ert prýði hennar og máttur
og fyrir velþóknun þína er horn vort hafið.
19Því að skjöldur vor heyrir Drottni til
og konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.