Einn skal annan styrkja

1 Takið á móti trúarveikum án þess að dæma skoðanir þeirra. 2 Einn er þeirrar trúar að alls megi neyta, annar er veikur í trúnni og neytir einungis jurtafæðu. 3 Sá sem neytir skal ekki fyrirlíta hinn sem neytir ekki og sá sem neytir ekki skal ekki dæma þann sem neytir því að Guð hefur tekið á móti honum. 4 Hvað átt þú með að dæma þjón annars manns? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
5 Einn gerir mun á dögum, annar metur alla daga jafna. Hver og einn fylgi sannfæringu sinni. 6 Sá sem þykist verða að taka tillit til þess hvaða dagur er gerir svo vegna Drottins. Og sá sem neytir kjöts gerir það vegna Drottins því að hann gerir Guði þakkir. Hinn sem lætur óneytt gerir svo vegna Drottins og færir Guði þakkir. 7 Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. 8 Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins. 9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. 10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. 11 Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“
12 Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér.