Þrátt fyrir að Simbabve standi frammi fyrir töluverðum efnahagslegum og félagslegum vanda, auk umhverfismála, heldur Biblíufélagið áfram að sinna því hlutverki sínu að sjá þurfandi fólki fyrir Orði Guðs sem breytir lífi þess. Hins vegar er það ekki áreynslulaust.

„Já, það eru örðugir tímar hjá okkur,“ viðurkennir Chipo Maringe, framkvæmdastjóri Hins simbabvíska biblíufélags (BSZ). „Það er mjög erfitt að starfa sem biblíufélag þegar ekkert reiðufé er haldbært. Það gerir okkur erfitt fyrir að kaupa eldsneyti fyrir faratæki okkar og rafalinn að veita skrifstofunni okkar og versluninni rafmagn.

Simbabve er í heljargreipum djúprar efnahagskreppu sem snertir alla landsmenn. Talið er að aðeins 5-10% íbúa sé í opinberri vinnu og hin rúmu 90% sem eftir standa reyna að skrimta eftir því sem kostur er. Í mörgum tilfellum er um að ræða götusölu eða á afskekktustu landsvæðunum er sjálfsþurftarbúskapur.

Og það er hin hömlulausa verðbólga sem veldur verðhækkunum á grundvallarlífsnauðsynjum og gerir nær ómögulegt fyrir Chipo og teymi hennar að áætla fram í tímann.

„Verðbólgan gerir okkur svo erfitt fyrir að útbúa fjárhagsáætlun,“útskýrir hún. „Við getum ekki gert fjárhagsáætlun til næstu sex mánaða vegna þess að við vitum ekki hvernig aðstæður verða. Við verðum að starfa dag í senn.“

Chipo hefur einnig áhyggjur af teymi sínu og öryggi þess er það ferðast um landið, fer í vettvangsheimsóknir, oft um hættulega vegi á vanbúnum farartækjum. Yfirþýðandinn Sheila Chamburuka lýsti heimsókn á þýðingarsvæði þar sem bíll Biblíufélagsins „spólaði þrisvar sinnum“ á söndugum veginum, svo að engu mátti muna að hann snerist út af, eins og kemur býsna oft fyrir bíla á slíkum sveitavegum.

——

Þrátt fyrir allar þær áskoranir sem Hið simbabvíska biblíufélag stendur frammi fyrir, einsetur teymið sér að halda áfram að gera Orð Guðs aðgengilegt eins mörgu fólki og unnt er.

Þúsundir Simbabvebúa geta nálgast Ritninguna á blindraletri og hljóðbókum og vel gengur að þýða alla þessa þrjá þætti (þ.e. á blindraletur, hljóðbók og prent).

Áætlað er að  árið 2023 verði lokið við Chikunda-Biblíuna, sem ætlað er að bæta úr þörf um það bil 160.000 manns  í Norður-Simbabve sem tala þetta tungumál, að ekki sé minnst á samfélög chikundamælandi fólks í nágrannaríkjunum Sambíu og Mósambík.

Það landsvæði þar sem chikunda er fyrsta tungumál margra Simbabvebúa er eitt vanþróaðasta landið. Fram til þessa og þar til nýja þýðingin verður gefin út, þurfa chikundamælandi lesendur Biblíunnar að gera sér að góðu að lesa Ritninguna á öðru tungumáli, venjulega á shonamáli, ensku eða chewamáli.

Verkefninu var fyrst hleypt af stokkunum árið 2011, þegar leiðtogar kirkjunnar föluðust eftir hjálp biblíufélagsins við að þýða Biblíuna í heild í fyrsta skiptið yfir á chikundamál til þess að bæta úr þörf íbúa þessara þriggja landa.

Leiðtogar kirkjunnar báðu Biblíufélagið um að þýða bæði Gamla og Nýja testamentið og að tryggja að fjölbreyttur hópur chikundamælandi fólks yrði haft með í ráðum, eftir að önnur samtök komu fram með Nýja testamentið á chikundamáli, sem ekki var vel tekið.

Nú leggja fjórir þýðendur hart að sér við að ljúka þessari brýnu þýðingu sem mun færa gleði og von svo mörgu fólki, sem býr í landi, er gengur í gegnum tímabil myrkurs og sorta.

Þessir þýðendur, þrír karlar og ein kona, koma úr mismunandi söfnuðum og njóta stuðnings 20 manna yfirlesarateymis.

Öll leggjast þau á eitt um að Biblían verði fáanleg á móðurmáli þeirra, þrátt fyrir allar þær áskoranir sem þau mæta í þessu starfi sínu.

Föstudagur 6. mars var heimsdagur bænarinnar, og meginbænarefnið er Simbabve. Það er ekki of seint að biðja fyrir þeim!

 

Vilt þú biðja fyrir:

°             Simböbvsku þjóðinni, sem nú um stundir glíma við efnahagsleg, félagsleg og stjórnmálaleg vandamál af ýmsum toga, að ekki sé minnst á eina verstu þurrka í sögu landsins.

°             Starfsfólki Hins simbabvska biblíufélags, sem enn skuldbindur sig til að sinna verki Guðs þrátt fyrir þær þrengingar sem það stendur frammi fyrir.

°             Þessum nýju þýðingum. Þökkum Guði fyrir það að hann heldur áfram að starfa á erfiðum tímum og biðjum einnig fyrir því, að þessar nýju Biblíurgleðji og upplýsi allt þetta fólk.

°             Þýðendunum — þeir hafa gefið svo mikið af tíma sínum og orku vegna þessa verkefnis vegna þess að þeir trúa þvi að hún sé þessu fólki svo mikilvæg. Biðjum um verndarhönd Guðs, kraft, visku og dómgreind þeim til handa í því augnamiði að ljúka þessari vinnu.

 

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi á íslensku – en hún er frá vinum okkar í Hinu skoska biblíufélagi.