11. kafli
28 Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs. Það varð til þess að þið fenguð að heyra fagnaðarerindið. En í ljósi útvalningar sinnar eru þeir elskaðir sakir forfeðranna. 29 Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar. 30 Þið voruð fyrrum óhlýðin Guði en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra. 31 Eins hafa þeir nú orðið óhlýðnir svo að þið hlytuð miskunn til þess að þeim mætti einnig verða miskunnað. 32 Guð hefur gefið alla menn óhlýðninni á vald til þess að hann geti miskunnað öllum.
33 Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!
34 Hver hefur þekkt huga Drottins?
Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?
35 Hver hefur að fyrra bragði gefið honum
og átt að fá það endurgoldið?
36 Frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.
12. kafli
Sönn og rétt guðsdýrkun
1 Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. 2 Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
3 Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.
4 Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5 Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir. 6 Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið. Sé það spádómsgáfa þá notum hana í samræmi við trúna, 7 sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, 8 sá sem hvetja skal geri það, sá sem gefur sé örlátur. Sá sem veitir forstöðu sé kostgæfinn og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði.