Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum

1 Ég spyr nú: Hefur Guð útskúfað lýð sínum? Öðru nær! Sjálfur er ég Ísraelsmaður, af kyni Abrahams, ættkvísl Benjamíns. 2 Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum sem hann þekkti fyrir fram. Ég minni á það sem Ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann kemur fram fyrir Guð með kæru á hendur Ísrael: 3 „Drottinn, spámenn þína hafa þeir drepið og rifið niður ölturu þín, ég er einn eftir og þeir sitja um líf mitt.“ 4 En hvaða svar fær hann hjá Guði? „Ég hef tekið frá handa mér sjö þúsundir manna sem hafa ekki beygt kné fyrir Baal.“ 5 Eins eru á okkar tíma leifar eftir sem Guð hefur valið af náð. 6 En sé það af náð er það ekki vegna verka, þá væri náðin ekki orðin náð.
7 Hvað merkir þetta? Að það sem Ísrael keppir eftir hlotnaðist honum ekki en útvöldum hlotnaðist það. Hinir urðu forhertir 8 eins og ritað er: „Guð gaf þeim sljóan anda, augu sem sjá ekki, eyru sem heyra ekki allt fram á þennan dag.“
9 Og Davíð segir: „Verði borðhald þeirra snara og gildra þeim til falls og refsingar. 10 Blindist augu þeirra að þeir sjái ekki og ger bak þeirra bogið um aldur.“