Guð sýnir hve ómælanleg dýrð hans er

19 Þú munt nú vilja segja við mig: „Hvað er hann þá að ásaka okkur framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?“ 20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort fær smíðisgripurinn sagt við smið sinn: „Hví gerðir þú mig svona?“ 21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu svo að hann megi úr sama deigi gera viðhafnarker og annað til hversdagsnota?
22 Hafi Guð viljað sýna reiði sína og birta mátt sinn hefur hann samt af mikilli þolinmæði umborið þau ker sem vöktu reiði hans og áttu fyrir sér að fara forgörðum. 23 Hann ætlaði með því að sýna hve ómælanleg dýrð hans er við þá sem hann miskunnar[ og útvelur til dýrðar. 24 Þetta á við okkur,[ sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga heldur og úr flokki heiðingja. 25 Eins og hann líka segir hjá Hósea:
Lýð sem ekki var minn mun ég kalla minn
og þá sem ekki var elskuð mun ég mína elskuðu kalla.
26 Og á sama stað og sagt var við þá:
Þið eruð ekki minn lýður,
þar munu þeir kallaðir verða börn Guðs lifanda.

27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: „Þótt fjöldi Ísraels barna væri sem sandur sjávar munu leifar einar frelsaðar verða. 28 Drottinn mun í skyndi gera upp reikning sinn á jörð og ljúka að fullu.“ 29 Og eins hefur Jesaja sagt: „Hefði Drottinn allsherjar ekki látið oss eftir niðja værum vér orðin eins og Sódóma, værum lík Gómorru.“
30 Hvað skal um þetta segja? Heiðingjarnir, sem sóttust ekki eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti – réttlæti af trú. 31 En Ísraelsmenn, sem lögðu sig eftir lögmáli er veitt gæti réttlæti, náðu því ekki. 32 Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn 33 eins og ritað er:
Sjá, ég set í Síon ásteytingarstein
og hrösunarhellu.
Enginn sem á hann trúir
skal þurfa að blygðast sín.