Guð og hans útvaldi lýður

1 Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér 2 að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu 3 og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, 4 Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana,[ löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. 5 Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.[
6 Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn sem af Ísrael eru komnir. 7 Ekki eru heldur allir börn Abrahams þótt þeir séu niðjar hans. Nei: „Afkomendur Ísaks munu taldir niðjar þínir.“ 8Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur Abrahams börn Guðs heldur þeir sem fyrirheitið hljóðar um. 9 Guð gaf honum fyrirheit um fæðingu Ísaks þegar hann sagði: „Í þetta mund að ári kem ég aftur og þá mun Sara hafa eignast son.“
10 Og ekki nóg með það. Eins var um Rebekku þegar hún varð þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, forföður okkar, Ísaks. 11 Nú, til þess að það stæði stöðugt að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkum og að öllu komin undir vilja þess er kallar, 12 var henni sagt áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: „Hinn eldri skal þjóna hinum yngri.“ 13 Eins og ritað er: „Jakob elskaði ég, Esaú hataði ég.“
14 Hvað skal um þetta segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. 15 Hann segir við Móse: „Ég miskunna þeim sem ég vil miskunna og líkna þeim sem ég vil líkna.“ 16 Það er því ekki komið undir vilja manns eða áreynslu heldur Guði sem miskunnar. 17 Því er í ritningunni sagt við faraó: „Einmitt til þess hóf ég þig að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina.“ 18 Svo miskunnar þá Guð þeim sem hann vill en forherðir þann sem hann vill.