7 Nú var boð látið ganga til allra í Júda og Jerúsalem, sem heim höfðu snúið, og þeim stefnt saman í Jerúsalem. 8 Hver sem ekki kæmi innan þriggja daga skyldi útilokaður frá söfnuði þeirra sem heim höfðu snúið og allar eignir hans helgaðar banni samkvæmt ákvörðun leiðtoganna og öldunganna. 9 Á þriðja degi þaðan í frá, tuttugasta dag níunda mánaðar, söfnuðust allir karlmenn í Júda og Benjamín saman í Jerúsalem. Allt fólkið settist niður á torginu við hús Guðs, skjálfandi vegna þessa máls og af því að það rigndi. 10 Þá reis Esra prestur á fætur, ávarpaði þá og sagði: „Þið hafið svikið með því að taka til ykkar útlendar konur og með því aukið sekt Ísraels. 11 Játið nú syndir ykkar fyrir Drottni, Guði feðra ykkar, og gerið vilja hans. Greinið ykkur frá þjóðunum í landinu og hinum útlendu konum.“
12 Þá svaraði allur söfnuðurinn og sagði hárri röddu: „Okkur ber að breyta eins og þú hefur boðið. 13 En fólkið er margt og nú er regntíminn svo að ófært er að vera utan dyra. Auk þess verður ekki gert út um þetta mál á einum eða tveimur dögum því að margir okkar hafa brotið af sér í þessu efni. 14 Foringjar okkar skulu því koma fram fyrir hönd alls safnaðarins. Allir borgarbúar, sem hafa tekið sér útlendar konur, skulu koma á tilteknum tíma, og ásamt þeim öldungar og dómarar hverrar borgar, til þess að við getum beint frá okkur brennandi reiði Guðs okkar vegna þessa.“
15 Aðeins Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason lögðust gegn þessari tillögu og Mesúllam og Sabtaí Levíti fylgdu þeim að málum. 16 En þeir sem höfðu snúið heim úr útlegðinni gerðu eins og lagt var til.
Esra prestur valdi nú með nafnakalli einn ættarhöfðingja frá hverri ætt. Þeir komu saman fyrsta dag tíunda mánaðarins til að rannsaka málavexti. 17Fyrsta dag fyrsta mánaðarins gengu þeir frá málum allra þeirra manna sem höfðu tekið til sín útlendar konur.