9. kafli

10 En Guð, hvað getum vér nú sagt eftir allt þetta? Vér höfum horfið frá boðum þínum 11 sem þú lést spámennina, þjóna þína, leggja fyrir oss og sagðir: Landið, sem þér eruð að fara inn í til þess að taka til eignar, er óhreint. Þjóðirnar í landinu hafa saurgað það. Með andstyggilegum siðum sínum hafa þær fyllt það viðurstyggð landshorna á milli. 12 Gefið því ekki dætur yðar sonum þeirra og takið ekki dætur þeirra að konum handa sonum yðar. Þér megið aldrei stuðla að farsæld þeirra og velgengni ef þér eigið að eflast og njóta gæða landsins og fá það niðjum yðar í arf um alla framtíð.
13 Eftir allt, sem komið er yfir oss vegna illra verka vorra og mikillar sektar, hefur þú, Guð vor, samt hegnt oss minna en afbrot vor gáfu tilefni til og leyft að þessi hópur kæmist af. 14 Ættum vér þá að brjóta boð þín á ný og mægjast við þessar viðurstyggilegu þjóðir? Hlytir þú þá ekki að úthella reiði þinni yfir oss þar til vér værum gersamlega afmáð svo að enginn kæmist af og enginn bjargaðist og yrði eftir?
15 Drottinn, Guð Ísraels, þú ert réttlátur. Þess vegna vorum vér skilin eftir og erum nú sá hópur sem bjargaðist. Líttu til oss, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri. Enginn fái staðist frammi fyrir þér sökum hennar.“

10. kafli

Óheimil sambúð leyst upp

1 Esra flutti bæn sína og játningu grátandi og liggjandi á hnjánum frammi fyrir húsi Guðs. Á meðan safnaðist að honum mjög mikill söfnuður Ísraelsmanna, karlar, konur og börn. Og fólkið grét hástöfum. 2 Þá tók Sekanja Jekíelsson, afkomandi Elams, til máls og sagði við Esra: „Við höfum brugðist Guði okkar með því að búa með konum af framandi þjóðerni, afkomendum þjóðanna í landinu. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael. 3 Nú skulum við gera sáttmála við Guð okkar og skuldbinda okkur til að senda frá okkur allar þessar konur og börnin sem þær hafa fætt, samkvæmt ráði herra míns og allra sem óttast boð Guðs okkar. Eftir lögmálinu skal breytt. 4 Rístu á fætur því að mál þetta er í þínum höndum. Við stöndum með þér, vertu djarfur og gakktu til verks.“
5 Þá reis Esra á fætur og tók eið af leiðtogum prestanna, Levítunum og öllum Ísrael um að framfylgja þessu. Þegar þeir höfðu svarið eiðinn 6 fór Esra þaðan sem hann hafði verið frammi fyrir húsi Guðs og gekk til herbergis Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki matar né drykkjar því að hann syrgði enn vegna svika þeirra sem höfðu snúið heim úr útlegðinni.