8. kafli

35 Þeir sem komu heim úr útlegðinni, hinir landflótta, færðu nú Guði Ísraels brennifórnir, tólf naut fyrir allan Ísrael, níutíu og sex hrúta og sjötíu og sjö lömb og auk þess tólf geithafra í syndafórn. Allt þetta var fært Drottni að brennifórn.
36 Loks voru tilskipanir stórkonungsins fengnar satröpum hans og landstjórum skattlandsins handan fljóts. Þaðan í frá veittu þeir þjóðinni og húsi Guðs stuðning.

9. kafli

Bann gegn mægðum við útlendinga

1 Að þessu loknu komu leiðtogarnir til mín og sögðu: „Ísraelslýður, prestarnir og Levítarnir hafa ekki greint sig frá öðrum þjóðum í landinu þrátt fyrir andstyggilegt líferni þeirra, frá Kanverjum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amorítum. 2 Þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur úr hópi dætra þeirra svo að hinn heilagi kynstofn hefur blandast þjóðum landsins. Höfðingjarnir og embættismennirnir urðu fyrstir til að svíkja.“
3 Þegar ég heyrði þetta reif ég klæði mín og yfirhöfn, reytti hár mitt og skegg og settist agndofa niður. 4 Þá söfnuðust að mér allir sem óttuðust orð Guðs Ísraels vegna þessara svika þeirra sem snúið höfðu heim. En ég sat sem lamaður þar til tími var kominn til að færa kvöldfórn. 5 En er að kvöldfórn var komið reis ég á fætur úr niðurlægingu minni í rifnum klæðum og yfirhöfn, féll á kné, lauk upp lófum til Drottins, Guðs míns, 6 og bað: „Guð minn, ég fyrirverð mig. Ég blygðast mín að snúa ásjónu minni til þín, Guð minn, því að afbrot vor eru vaxin oss yfir höfuð, sekt vor er himinhá. 7 Allt frá dögum forfeðra vorra til þessa dags hefur sekt vor verið mikil. Sökum syndar vorrar vorum vér, konungar vorir og prestar, seldir í hendur konungum framandi landa og allt til þessa dags höfum vér mátt þola sverð, útlegð, rán og niðurlægingu. 8 Nú hefur Drottinn, Guð vor, veitt oss þá miskunn í örskamma stund að af komst lítill hópur sem hefur bjargast. Hann hefur veitt oss hvíld á helgistað sínum og þannig hefur Guð veitt augum vorum ljóma á ný og ofurlítinn nýjan lífskraft í ánauð vorri. 9 Vissulega erum vér ánauðug en Guð vor hefur ekki yfirgefið oss í ánauðinni heldur vakið velvild Persakonungs í vorn garð og veitt oss nýtt þrek til að endurbyggja hús Guðs vors og reisa það að nýju úr rústum og hann hefur veitt oss öruggt skjól í Júda og Jerúsalem.