21 Þá lét ég kallara boða föstu þarna við Ahavafljót. Þannig ætluðum við að auðmýkja okkur fyrir Guði okkar og biðja hann um farsæla ferð fyrir okkur, fjölskyldur okkar og farangur. 22 Ég kunni ekki við að biðja konunginn um herlið og riddara til að verja okkur fyrir óvinum á leiðinni því að við höfðum sagt við konung: „Hönd Guðs okkar er yfir öllum sem leita til hans og hann verndar þá en máttur hans og reiði kemur yfir þá sem snúa baki við honum.“ 23 Við föstuðum því og leituðum úrskurðar Guðs um þetta og hann bænheyrði okkur.
24 Því næst valdi ég tólf af leiðtogum prestanna ásamt þeim Serebja og Hasabja og tíu bræðrum þeirra. 25 Síðan vó ég frammi fyrir þeim silfrið, gullið og áhöldin sem konungur, ráðgjafar hans og hirðmenn og allir þeir Ísraelsmenn, sem þarna voru saman komnir, höfðu gefið til húss Guðs okkar. 26 Ég vó og fékk þeim í hendur sex hundruð og fimmtíu talentur silfurs, hundrað silfuráhöld, tvær talentur á þyngd, einnig hundrað talentur gulls 27og tuttugu bikara úr gulli, sem voru þúsund daríka virði, og loks tvö ker úr gullgljáandi góðum eir sem voru gulls ígildi.
28 Síðan sagði ég við þá: „Þið eruð helgaðir Drottni og áhöldin eru einnig heilög. Silfrið og gullið er gjöf, gefin Drottni, Guði feðra ykkar, af fúsum og frjálsum vilja. 29 Gætið þess því vandlega, þar til þið vegið það frammi fyrir leiðtogum prestanna, Levítunum og ættarhöfðingjum Ísraels í Jerúsalem, í sölum húss Drottins.“
30 Prestarnir og Levítarnir tóku þá við silfrinu, gullinu og áhöldunum, sem höfðu verið vegin, til þess að flytja til Jerúsalem, í hús Guðs okkar. 31 Við lögðum af stað frá Ahavafljóti tólfta dag fyrsta mánaðarins og héldum til Jerúsalem. Hönd Guðs okkar hvíldi yfir okkur og verndaði okkur á leiðinni fyrir áreitni fjandmanna og stigamanna.
32 Þegar við komum til Jerúsalem, héldum við kyrru fyrir í þrjá daga. 33 En á fjórða degi voru silfrið, gullið og áhöldin vegin í húsi Guðs okkar og fengin í hendur Meremót presti Úríasyni. Einnig voru Eleasar Pínehasson og Levítarnir Jósabad Jesúason og Nóadja Binnúíson viðstaddir.
34 Allt var afhent eftir tölu og þyngd og var þyngdin skráð um leið.