Hér er skemmtileg grein frá Hinu breska biblíufélagi:
Þessi grein hefur að geyma persónulega skoðun höfundar. Hún samræmist gildum Breska og erlenda biblíufélagsins, en henni er ekki ætlað að fjalla um stöðu okkar sem stofnunar. Hér eru vangaveltur á ferð – spurningar sem gagnlegt er að glíma við.
Spurt er:
Hvert er sambandið á milli hins nýja himins og hinnar nýju jarðar í Opinberunarbókinni? Ef ný jörð verður til og hinni núverandi verður eytt, að hversu miklu leyti ættu þá kristnir menn að láta sig varða verndun hinnar gömlu og stefnuskrána um græna orku?
Svar:
Opinberunarbókin er full af flóknu og sértæku myndmáli sem okkur er eindregið ráðlagt að leggja stund á í samhengi við Biblíuna sem heild. Ef við skoðum Jesú, heyrum við hann kenna fylgjendum sínum að biðja: „Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“
Þegar kristið fólk talar um eilífðina, er hætt við að lögð sé áhersla á himnaríki. Jesús kennir okkur hins vegar að líta á himnaríki og jörð sem eina heild. Tökum eftir því, að samkvæmt orðum hans snýst ríki Guðs um að vilji hans verði, ekki fyrir utan jörðina, heldur á jörðinni. Og hvað svo sem koma ríkis Guðs mun um síðir fela í sér í smáatriðum, vísaði bæn Jesú, um að Guðs vilji yrði, ugglaust ekki aðeins til framtíðar.
Af þeim sökum verð ég sem fylgismaður Jesú að spyrja sjálfan mig: „Er vilji Guðs við lýði á jörðinni um þessar mundir, þegar hækkandi sjávarborð ógnar eyríkjum eins og okkar, hlýnandi úthöf leiða af sér sífellt öflugri fellibylji sem geta lagt heilu borgirnar í rúst og slegin eru hitamet, sem kynda undir hamslausa eldsvoða og eyðileggja þá uppskeru, sem fólkið í örvæntingu sinni reiðir sig á?
Samkvæmt langflestum sérfræðingum á þessu sviði eru allir ofangreindir þættir í grundvallaratriðum af mannavöldum. Með öðrum orðum á ég að hluta til sök á þessu. Sem fylgismaður Jesú, sem vill að vilji Guðs verði á jörðinni, get ég ekki annað en rennt yfir þá hlutdeild sem ég á í þeirri gjöreyðingu sem á sér stað fyrir augum okkar.
Ef ég skil Jesú rétt, er spurningin um hegðun okkar í dag gildishlaðin, hvað svo sem gerist á morgun. Á dómsdegi vill meistarinn að þjónar hans framkvæmi vilja sinn; hvorki meira né minna. Marteini Lúther er eignaður heiðurinn að þessum hnyttnu orðum: „Ef heimurinn færist á morgun, myndi ég samt gróðursetja eplatré í dag.“
Það er freistandi að hugsa sem svo að það sem þú eða ég gerum til þess að „bjarga plánetunni“ sé einskis vert, nema að þau ríki sem hafa vald til þess að stemma stigu við loftslagsbreytingum — segjum Bandaríkin, Kína eða Brasilía — skuldbindi sig til þess að vernda umhverfið og taki upp kolefnishlutlausa orkugjafa. En það er svolítið eins og að segja; hvers vegna ætti ég að borga skatta þar sem hinir ofurríku reyna að forðast þá? Ég trúi því að köllun okkar sem kristinna manna felist í því að draga upp mynd af réttlátum Guði með því að gera það sem telst rétt og hana nú! Hvað umhverfið varðar, tók Drottinn Guð „manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans“ (I. Mós 2.15). Mennirnir hafa þeirri skyldu að gegna, sem gefin er af Guði, að annast sköpun hans.
Það sem hvetur okkur til dáða er að hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum með því að gera einfaldar breytingar á lífsstíl; einangra heimilin, deila bílfari eða ná í reiðhjólið úr skýlinu, hætta að borða kjöt eða í það minnsta draga úr kjötneyslu og bóka frí innanlands fremur en langt, langt út í heim — og gera engin mistök, það er töggur í tölunum. Stjórnmálamenn og viðskiptajöfrar eiga það til að bregðast hratt við, þegar einstaklingar byrja á annað borð að breyta hegðun sinni.
Ef við snúum okkur aftur að Biblíunni — þar sem hún talar um nýja jörð, leggur hún einnig til að endurnýjunin hefjist strax í dag, þar sem á hverjum einasta degi átta fylgjendur Krists sig á því, hvaða þýðingu það hefur að fylgja honum. Og ég fæ ekki séð, hvernig slíkt getur útilokað viðbrögð okkar gagnvart loftslagsbreytingum. „Verði þinn vilji á jörð.“
- – – –
Þessi grein var skrifuð þann 17. febrúar 2020 af Michael Pfundner, sem starfar í útgáfuteymi Hins breska biblíufélags.
Þorgils Hlynur Þorbergsson cand.theol. þýddi