Skrá yfir þá sem sneru heim með Esra

1 Þetta eru ættarhöfðingjarnir sem fóru með mér heim frá Babýlon í stjórnartíð Artaxerxesar konungs og þeir sem skráðir eru í niðjaskrá þeirra:
2 Af niðjum Pínehasar Gersóm.
Af niðjum Ítamars Daníel.
Af niðjum Davíðs Hattús, 3 sonur Sekanja.
Af niðjum Parós Sakaría og með honum skráðir 150 karlmenn.
4 Af niðjum Pahat-Móabs Eljehó-enaí Serajason og 200 karlmenn með honum.
5 Af niðjum Sattú Sekanja Jahasíelsson og með honum 300 karlmenn.
6 Af niðjum Adíns Ebed Jónatansson og með honum fimm tugir karlmanna.
7 Af niðjum Elams Jesaja Ataljason og með honum sjö tugir karlmanna.
8 Af niðjum Sefatja Sebadía Míkaelsson og með honum átta tugir karlmanna.
9 Af niðjum Jóabs Óbadía Jehíelsson og með honum 218 karlmenn.
10 Af niðjum Baní Selómít Jósifjason og með honum 160 karlmenn.
11 Af niðjum Bebaí Sakaría Bebaíson og með honum 28 karlmenn.
12 Af niðjum Asgads Jóhanan Hakkatansson og með honum 110 karlmenn. 13 Af niðjum Adóníkams þeir síðustu og voru nöfn þeirra Elífelet, Jeíel og Semaja og með þeim sex tugir karlmanna.
14 Af niðjum Bigvaí þeir Útaí og Sabbúd og með þeim sjö tugir karlmanna.

Undirbúin för til Jerúsalem

15 Ég safnaði þeim saman við fljótið sem rennur til Ahava. Þegar við höfðum verið þar í tjöldum í þrjá daga varð mér ljóst að þarna voru leikmenn og prestar, en Levíta fann ég enga. 16 Ég sendi því af stað eftir þeim Elíeser, Aríel, Semaja, Elnatan, Jaríb, Elnatan, Natan, Sakaría og Mesúllam, sem voru foringjar, og Jójaríb og Elnatan sem voru vitrir menn. 17 Ég sendi þá til Iddó, höfðingja í Kasifja, og lagði þeim í munn orðin sem þeir áttu að flytja Iddó og bræðrum hans í Kasifja, að biðja þá að útvega okkur menn til að þjóna í húsi Guðs okkar. 18 Þar sem gæskurík hönd Guðs okkar var yfir okkur sendu þeir okkur vitran mann sem var kominn af Mahelí Levísyni, Ísraelssyni. Það var Serebja ásamt sonum sínum og bræðrum, átján alls. 19Enn fremur sendu þeir Hasabja og með honum Jesaja, sem var afkomandi Merarí, bræður hans og syni þeirra, alls tuttugu menn, 20 og loks musterisþjóna sem Davíð og hirðmennirnir höfðu sett til að þjóna Levítunum, alls tvö hundruð og tuttugu musterisþjóna. Þeir voru allir skráðir með nafni.