Tilskipun konungs

11 Hér fer á eftir afrit þeirrar tilskipunar sem Artaxerxes konungur fékk Esra, presti og fræðimanni, sem var fróður um boðorð Drottins og lög sem hann hafði gefið Ísrael:
12 „Artaxerxes, konungur konunganna, sendir kveðju Esra presti sem fróður er í lögmáli Guðs himinsins. 13 Hér með lýsi ég yfir: Allir sem eru af þjóð Ísraels í ríki mínu, þar með taldir allir prestar og Levítar, sem vilja, skulu fara með þér til Jerúsalem. 14 Þú ert sendur af konungi og sjö ráðgjöfum hans til þess að kanna aðstæður í Júda og Jerúsalem samkvæmt lögmáli Guðs þíns sem er í hendi þér. 15 Einnig átt þú að hafa með þér silfur og gull sem konungur og ráðgjafar hans hafa gefið Guði Ísraels sem á sér bústað í Jerúsalem. 16 Enn fremur átt þú að taka með þér allt það silfur og gull sem þú kannt að fá frá skattlandinu Babýlon, ásamt þeim gjöfum sem þjóðin og prestarnir leggja fram af frjálsum vilja til húss Guðs síns í Jerúsalem. 17 Fénu skaltu því verja samviskusamlega til kaupa á nautum, hrútum og lömbum og til kaupa á kornfórnum og dreypifórnum sem síðan skulu bornar fram á altari húss Guðs ykkar í Jerúsalem. 18 Það sem þá er eftir af silfrinu og gullinu skalt þú og bræður þínir nota eins og þið álítið rétt og í samræmi við úrskurð Guðs ykkar. 19Áhöldin til guðsþjónustunnar, sem þér voru fengin, skalt þú afhenda fyrir augliti Guðs í húsi hans í Jerúsalem. 20 Annað, sem þörf kann að vera fyrir í húsi Guðs þíns og þú þarft að kaupa, skaltu greiða úr fjárhirslum konungs. 21 Ég, Artaxerxes konungur, skipa hér með öllum féhirðum í skattlandinu handan fljótsins: Allt, sem Esra prestur, sem fróður er í lögmáli Guðs himinsins, fer fram á, skal greitt honum að fullu, 22 allt að hundrað talentur silfurs, allt að hundrað kór hveitis, allt að hundrað böt víns, allt að hundrað böt olíu og ómælt salt. 23 Allt, sem Guð himinsins krefst, skal af kostgæfni látið húsi Guðs himinsins í té svo að reiði hans komi ekki yfir ríki konungs og sona hans.
24 Enn fremur tilkynnist ykkur: Ekki er heimilt að leggja skatta, gjöld eða tolla á neinn prest, Levíta, söngvara, hliðvörð, musterisþjón eða aðra starfsmenn við þetta hús Guðs. 25 En þú, Esra, skalt samkvæmt lögmáli Guðs þíns, sem er í hendi þér, skipa dómara og lögfróða menn til að dæma í málum þjóðarinnar allrar í skattlandinu handan fljóts, allra þeirra sem þekkja lögmál Guðs þíns. En þeim sem ekki þekkja lögmálið eigið þið að kenna það. 26 En hver sem ekki breytir í öllu eftir lögmáli Guðs þíns og lögmáli konungs skal leiddur fyrir rétt og dæmdur til dauða, útlegðar, sektar eða í fangelsi.“
27 Lofaður sé Drottinn, Guð feðra okkar. Hann blés konungi öllu þessu í brjóst svo að hann gæti gert hús Drottins í Jerúsalem veglegt. 28 Hann hefur veitt mér hylli konungs og ráðgjafa hans og allra hinna voldugu hirðmanna konungs. Þar sem hönd Drottins, Guðs míns, var yfir mér jókst mér svo áræði að ég safnaði saman höfðingjum Ísraels til þess að fara heim með mér.