6. kafli

16 Ísraelsmenn, það er prestarnir, Levítarnir og aðrir, sem komnir voru heim úr útlegðinni, héldu vígsluhátíð húss Guðs með fögnuði. 17 Við vígslu húss Guðs fórnuðu þeir hundrað nautum, tvö hundruð hrútum og fjögur hundruð lömbum. Að auki færðu þeir tólf geithafra í syndafórn fyrir allan Ísrael, jafnmarga ættbálkum Ísraels. 18 Þá settu þeir presta í flokka og Levíta í deildir til þjónustu við Guð í Jerúsalem eins og ritað er í bók Móse.

Páskar og hátíð hinna ósýrðu brauða

19 Þeir sem komnir voru heim úr útlegðinni héldu páska á fjórtánda degi fyrsta mánaðarins. 20 Prestarnir og Levítarnir höfðu hreinsað sig, allir sem einn. Allir voru þeir nú hreinir og slátruðu því páskalambinu fyrir alla sem voru komnir, fyrir embættisbræður sína, prestana, og sjálfa sig. 21 Síðan neyttu allir Ísraelsmenn, sem voru komnir heim úr útlegðinni, páskalambsins ásamt öllum sem höfðu greint sig frá óhreinleika þjóðanna í landinu og gengið til liðs við Ísraelsmenn til þess að leita Drottins, Guðs Ísraels. 22 Þeir héldu einnig hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði því að Drottinn hafði glatt þá með því að snúa hug Assýríukonungs til þeirra svo að hann studdi starf þeirra að húsi Guðs, Ísraels Guðs.

7. kafli

Heimför Esra

1 Eftir þessa atburði, á valdatíma Artaxerxesar Persakonungs, hélt Esra af stað heimleiðis. Esra var sonur Seraja Asarjasonar, Hilkíasonar, 2 Sallúmssonar, Sadókssonar, Ahítúbssonar, 3 Amarjasonar, Asarjasonar, Merajótssonar, 4 Serhjasonar, Ússísonar, Búkkísonar, 5 Abísúasonar, Pínehassonar, Eleasarssonar, sonar Arons æðsta prests. 6Esra þessi sneri heim frá Babýlon. Hann var ritari, vel að sér í lögmáli Móse sem Drottinn, Guð Ísraels, hafði gefið. Konungurinn veitti honum allt sem hann óskaði af því að hönd Drottins, Guðs hans, var yfir honum.
7 Hópur Ísraelsmanna, þar á meðal prestar, Levítar, söngvarar, hliðverðir og musterisþjónar, fór með honum upp til Jerúsalem á sjöunda stjórnarári Artaxerxesar konungs. 8 Esra kom til Jerúsalem í fimmta mánuði sjöunda stjórnarárs konungs. 9 Hann hafði ákveðið að halda frá Babýlon fyrsta dag fyrsta mánaðarins og hann kom til Jerúsalem fyrsta dag fimmta mánaðarins, þar sem gæskurík hönd Guðs hans var yfir honum. 10 Enda hafði Esra einbeitt sér að því að rannsaka lög Drottins, framfylgja þeim og kenna Ísraelsmönnum lög og rétt í Ísrael.