Biblíudagurinn er ætíð annan sunnudag í níuviknaföstu (lt. Sexagesimae). Þann dag er guðspjallið eins og það er skrifað hjá guðspjallamanninum Lúkasi, áttundi kapítuli, versin fjögur til fimmtán. Þar segir frá sáðmanninum sem fór út að sá og þar greinir frá örlögum sáðkornsins, allt eftir því í hvern jarðveg það féll.

Það má segja að orð biblíudagsins sé orðið „sáning“ – guðspjallið vísar til þess og biblían sjálf er troðinn sekkur útsæðis. Sáning er fallegt orð og sáning er falleg gjörð, hún inniber fagurt markmið, það að sá er að líta til framtíðar – bjartsýnn. Þegar sáð er leynist sú hugsun – og vissa sé vel að verki staðið – að síðar muni afrakstur þessa verks koma í ljós, jafnvel marfaldur.

Þannig er sáningin ekki ólík því hlutskipti sem hinn kristni maður býr við, hann horfir fram á veginn í trú sinni, hann „seilist eftir því sem fram undan er og keppi[r] þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.“ Eins og það er orðað svo fallega í Filippíbréfinu.

Sáning birtist okkur með margvíslegu móti. Við getum horft til Hildar Guðnadóttur sem nýlega hlaut Óskarsverðlaun – til þeirra var sáð í tónlistarskóla fyrir mörgum árum. Knattspyrnumaðurinn sem skarar fram úr sáði á æfingum sem barn, foreldrar sem lesa fyrir börn sín og segja þeim sögur sá með þá  vissu í huga, og rökstuddu væntingar, að sá lestur geti hjálpað barninu síðar í lesskilningi og námi. Sunnudagaskólinn sáir svo upp spretti kirkjugestir framtíðar, barnaleikhús býr til leikhúsgesti næstu áratuga.

Biblíufélagið ástundar sáningu, það rækir sig sjálft hér uppi á Íslandi svo ekki bara við hér getum notið Guðs orðs, heldur og þúsundir og milljónir um víða veröld fengið að kynnast Jesú Kristi í gegnum heilaga ritningu.

Þannig getur þú lesandi góður sáð í þann jarðveg sem upp úr sprettur Guðs orð með því að leggja okkur lið í Hinu íslenska biblíufélagi, ganga í félagið eða styrkja það með öðrum hætti. Fyrir það sem þú lætur af hendi rakna er keypt útsæði, því sáð, og upp sprettur sem aldrei fyrr, Orð Guðs.

… …

Kær kveðja,
Guðmundur Brynjólfsson
starfsmaður Hins íslenska biblíufélags