Dýrðarfrelsi Guðs barna

18 Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast. 19 Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber. 20Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, 21 í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.
22 Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. 23 Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar. 24 Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? 25 En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.
26 Eins hjálpar andinn okkur í veikleika okkar. Við vitum ekki hvers við eigum að biðja eins og ber en sjálfur andinn biður fyrir okkur með andvörpum sem engum orðum verður að komið. 27 En hann sem hjörtun rannsakar veit hver hyggja andans er, að hann biður fyrir heilögum samkvæmt Guðs vilja.
28 Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. 29 Þau sem hann þekkti fyrir fram hefur hann og fyrirhugað til þess að mótast eftir mynd sonar síns svo að hann sé frumburður meðal margra systkina.[30 Þau sem hann fyrirhugaði hefur hann og kallað. Þau sem hann kallaði hefur hann og réttlætt og þau sem hann réttlætti hefur hann og gert vegsamleg.

Kærleikur Guðs í Kristi Jesú

31 Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? 32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? 33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. 34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. 35 Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists?[ Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? 36 Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.

37 Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. 38 Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, 39 hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.