Skírð til nýs lífs

1 Hvað merkir nú þetta? Eigum við að vera áfram í syndinni til þess að náðin verði því meiri? 2 Fjarri fer því! Við sem dóum syndinni, hvernig ættum við að lifa áfram í henni? 3Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? 4 Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.
5 Fyrst við erum samgróin honum með því að deyja líkt og hann eigum við einnig að vera samgróin honum með því að rísa upp líkt og hann. 6 Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi til þess að líkami syndarinnar yrði að engu og við værum aldrei framar þrælar syndarinnar. 7 Dauður maður er leystur frá syndinni.
8 Ef við erum dáin með Kristi trúum við því að við munum og með honum lifa. 9 Við vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. 10 Með dauða sínum dó hann frá syndinni í eitt skipti fyrir öll en lífi sínu lifir hann Guði. 11 Þannig skuluð og þið álíta sjálf ykkur vera dáin frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú.
12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama ykkar svo að þið hlýðnist girndum hans. 13 Ljáið ekki heldur syndinni limi ykkar sem ranglætisvopn. Nei, ljáið heldur Guði sjálf ykkur lifnuð frá dauðum og limi ykkar sem réttlætisvopn. 14 Synd skal ekki ríkja yfir ykkur þar eð þið eruð ekki undir lögmálinu heldur undir náðinni.

Leyst frá syndinni

15 Eða hvað? Eigum við að syndga fyrst við erum ekki undir lögmálinu heldur náðinni? Fjarstæða! 16 Vitið þið ekki að ef þið gerist ánauðug þý einhvers eruð þið nauðbeygð að hlýða honum? Annaðhvort hlýðið þið syndinni sem leiðir til dauða eða Guði sem leiðir til lífs í réttlæti. 17 En þökk sé Guði. Þið, sem voruð þrælar syndarinnar, urðuð af hjarta hlýðin þeirri kenningu sem ykkur var gefin. 18 Nú eruð þið leyst frá syndinni og bundin réttlætinu, 19 svo að ég noti líkingu úr mannlífinu, sökum veikleika ykkar. Eins og þið fyrrum létuð limina þræla fyrir óhrein öfl og siðleysi undir ólögum skuluð þið nú láta þá þjóna réttlæti Guðs og helgast honum.
20 Þegar þið voruð þrælar syndarinnar lutuð þið ekki yfirráðum réttlætisins. 21 Hvaða ávöxtu höfðuð þið af því? Þá eina sem þið finnið nú að eru til skammar því að þeir leiða að lokum til dauða. 22 En nú eruð þið leyst frá syndinni og bundin Guði. Það ber ávöxt til helgunar og eilífs lífs að lokum. 23 Því að laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.