Minn elskaði sonur

1 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. 2 Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. 3 Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. 4 Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
5 Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
6 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. 7 Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ 8 En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“