Verð þú hreinn
1 Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. 2 Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“
3 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. 4 Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
Sem þú trúir
5 Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: 6 „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“
7 Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“
8 Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. 9 Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
10 Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. 11 En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki 12 en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ 13 Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.