1 Þegar Bíleam skildi að það var Drottni þóknanlegt að blessa Ísrael vék hann ekki afsíðis til að leita spáfregna eins og fyrri skiptin, heldur sneri hann í átt til eyðimerkurinnar. 2 Þegar Bíleam leit upp sá hann Ísrael sem hafði sest að eftir ættbálkum. Þá kom andi Guðs yfir hann 3 og hann tók að flytja boðskap sinn og sagði:
Svo segir Bíleam Beórsson,
svo segir maður með lokuð augu,
4svo segir sá sem heyrir orð Guðs,
sem sér það sem Alvaldur birtir,
hann liggur með opin augu.
5Hve fögur eru tjöld þín, Jakob,
bústaðir þínir, Ísrael.
6Þeir eru breiddir út sem árkvíslir,
eins og trjágarðar á fljótsbakka,
eins og eik gróðursett af Drottni,
sedrustré við vatn.
7Vatn flýtur úr fötu hans
og útsæði hans er baðað í vatni.
Konungur hans er voldugri en Agag
og konungsvald hans eflist.
8Guð leiddi hann út úr Egyptalandi,
hann ber horn sem villinaut,
gleypir þjóðir sem þrengja að honum,
molar bein þeirra
og brýtur örvar þeirra.
9Hann bælir sig, leggst eins og ljón,
ungt ljón, hver rekur það á fætur?
Blessaður sé hver sem blessar þig,
bölvaður hver sem bölvar þér.