11 Balak sagði við Bíleam: „Hvað hefurðu gert mér? Ég sótti þig til að bölva fjandmönnum mínum en nú hefurðu margblessað þá.“ 12 Bíleam svaraði og sagði: „Á ég ekki að gæta þess að segja það eitt sem Drottinn hefur lagt mér í munn?“ 13 Þá sagði Balak við hann: „Komdu nú með mér á annan stað þaðan sem þú getur séð fólkið. Þú munt að vísu aðeins geta séð þá sem næst standa en ekki geta séð það allt. Formæltu þjóðinni fyrir mig frá þessum stað.“
14 Hann fór með hann upp á Pisgatind þangað sem víðast sést. Hann reisti sjö ölturu og færði naut og hrút í brennifórn á hverju altari.
15 En Bíleam sagði við Balak: „Stattu kyrr hjá brennifórn þinni en ég ætla að reyna að mæta Drottni.“
16 Þá mætti Drottinn Bíleam, lagði honum orð í munn og sagði: „Farðu aftur til Balaks og segðu honum þetta.“ 17 Þegar Bíleam kom til hans stóð hann enn við brennifórn sína og hirðmenn Móabs hjá honum. Balak spurði: „Hvað segir Drottinn?“ 18 Þá tók Bíleam að flytja boðskap sinn og sagði:
Rís upp, Balak, hlusta,
leggðu við hlustir, sonur Sippórs.
19Guð er ekki maður sem lýgur,
ekki sonur manns sem skiptir um skoðun.
Boðar hann eitthvað án þess að framkvæma það?
Heitir hann einhverju án þess að efna það?
20Ég tók að mér að blessa,
því blessa ég og tek það ekki aftur.
21Ekki er böl að sjá í Jakobi
né eymd í Ísrael.
Drottinn, Guð hans, er með honum
og konungshylling hljómar í Ísrael.
22 Guð leiddi þá út úr Egyptalandi,
hann ber horn sem villinaut,
23 því dugar enginn galdur gegn Jakobi,
engir töfrar gegn Ísrael.
Nú má segja við Jakob og Ísrael:
Hvað hefur Guð gert?
24 Þessi þjóð er sem ljón sem rís upp,
ljónsungi sem stendur á fætur,
hann leggst ekki til hvíldar
fyrr en hann hefur étið bráð sína,
drukkið blóð hinna vegnu.

25 Balak sagði við Bíleam: „Þótt þú formælir þjóðinni ekki, láttu að minnsta kosti vera að blessa hana.“ 26Bíleam svaraði og sagði við Balak: „Hef ég ekki sagt við þig: Ég geri það eitt sem Drottinn býður?“
27 Þá sagði Balak við Bíleam: „Komdu nú. Ég ætla að fara með þig á annan stað. Vera má að Guði þyki rétt að þú formælir þjóðinni fyrir mig þaðan.“
28 Síðan fór Balak með Bíleam upp á Peórtind þaðan sem útsýni er yfir eyðimörkina. 29 En Bíleam sagði við Balak: „Reistu hér sjö ölturu fyrir mig og búðu sjö naut og sjö hrúta til brennifórnar.“ 30 Balak gerði það sem Bíleam sagði og færði eitt naut og einn hrút í brennifórn á hverju altari.