22. kafli
36 Þegar Balak heyrði að Bíleam væri kominn gekk hann á móti honum til þeirrar borgar í Móab sem er við landamærin við Arnon í jaðri landsvæðisins. 37 Balak sagði við Bíleam: „Hef ég ekki sent menn til þín hvað eftir annað til að sækja þig? Hvers vegna komstu ekki til mín? Heldurðu að ég geti ekki launað þér?“ 38 En Bíleam sagði við Balak: „Nú er ég kominn til þín. En hvað get ég sagt? Ég get aðeins sagt það sem Guð leggur mér í munn.“
39 Síðan fór Bíleam með Balak og þeir fóru til Kirjat Kúsót. 40 Balak færði naut og sauðfé í sláturfórnir og sendi nokkuð af kjötinu til Bíleams og hirðmannanna sem með honum voru. 41 Morguninn eftir sótti Balak Bíleam og fór með hann upp á Baalshæð. Þaðan gat hann aðeins séð þá Ísraelsmenn sem næstir voru.
23. kafli
Spádómsorð Bíleams
1 Þá sagði Bíleam við Balak: „Reistu mér hér sjö ölturu og búðu sjö naut og sjö hrúta til fórnar.“ 2 Balak gerði það sem Bíleam bauð og Balak og Bíleam færðu naut og hrút í brennifórn á hverju altari. 3 Þá sagði Bíleam við Balak: „Stattu kyrr við brennifórn þína. Ég ætla að víkja mér frá. Vera má að Drottinn mæti mér. [ Ég mun segja þér hvað ég fæ að sjá.“ Síðan gekk hann burt og upp á hæð. 4 Þá mætti Guð honum. Bíleam sagði við hann: „Nú hef ég undirbúið þessi sjö ölturu og fært brennifórn á hverju þeirra.“
5 Því næst lagði Drottinn orð í munn Bíleams og sagði: „Farðu aftur til Balaks og segðu honum þetta.“ 6 Þá fór hann aftur til hans þar sem hann stóð enn við brennifórnir sínar og allir hirðmenn Móabs með honum. 7 Því næst flutti hann boðskap sinn.
Balak sótti mig frá Aram,
konungur Móabs, frá austurfjöllunum:
„Kom þú og bölva Jakobi fyrir mig,
kom og hóta Ísrael.“
8Get ég formælt þeim sem Drottinn formælir ekki,
get ég hótað þeim sem Drottinn hótar ekki?
9Frá klettagnípum sé ég hann,
af hæðunum horfi ég á hann,
Ísrael, þjóð sem býr ein sér
og telur sig ekki með öðrum þjóðum.
10Hver getur talið sandkorn Jakobs,
kastað tölu á tugþúsundir Ísraels?
Ég vildi deyja dauða hins réttláta,
að endalok mín verði sem hans.