22 En Guð reiddist af því að hann fór og engill Drottins gekk í veg fyrir hann til að hindra hann þegar hann kom ríðandi á ösnu sinni með tveimur fylgdarmönnum sínum. 23 Þegar asnan sá engil Drottins, sem stóð á veginum með brugðið sverð í hendi, beygði hún af veginum og fór út á akurinn. En Bíleam barði ösnuna til að koma henni aftur á veginn. 24 Engill Drottins staðnæmdist þá á þröngum stíg milli víngarðanna með grjótgarða á báðar hendur. 25 Þegar asnan sá engil Drottins þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Þá barði hann hana aftur. 26 Þá gekk engill Drottins enn fram og staðnæmdist á þröngum stígnum þar sem hvorki var hægt að víkja til hægri né vinstri. 27 Þegar asnan sá engil Drottins lagðist hún niður undir Bíleam sem reiddist og sló ösnuna með staf.
28 Þá lauk Drottinn upp munni ösnunnar og hún spurði Bíleam: „Hvað hef ég gert þér að þú hefur nú slegið mig þrisvar?“ 29 Bíleam svaraði ösnunni: „Þú gerir gys að mér. Hefði ég sverð í hendi mundi ég drepa þig.“ 30 En asnan svaraði Bíleam: „Er ég ekki þín asna sem þú hefur riðið alla ævi þar til nú? Hef ég haft það fyrir vana að fara þannig með þig?“ „Nei,“ svaraði hann.
31 Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams svo að hann sá engil Drottins standa á veginum með brugðið sverð í hendi. Hann laut honum og féll fram á ásjónu sína.
32 Engill Drottins spurði hann: „Hvers vegna hefurðu slegið ösnuna þína þrisvar? Ég gekk fram til að hindra þig því að leiðin, sem þú ferð, er hættuleg að mínum dómi. 33 Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið úr vegi fyrir mér hefði ég þegar í stað drepið þig en gefið henni líf.“
34 Bíleam svaraði engli Drottins: „Ég hef syndgað því að ég vissi ekki að þú stóðst í vegi fyrir mér. En nú skal ég snúa aftur. Það sem ég gerði er rangt í augum þínum.“ 35 Þá sagði sendiboði Drottins við Bíleam: „Farðu með mönnunum. En segðu ekkert annað en það sem ég segi þér.“