13 Morguninn eftir fór Bíleam á fætur og sagði við hirðmenn Balaks: „Farið aftur heim til lands ykkar því að Drottinn leyfir mér ekki að fara með ykkur.“ 14 Hirðmennirnir frá Móab lögðu þá af stað og þegar þeir komu til Balaks sögðu þeir: „Bíleam neitaði að koma með okkur.“
15 Þá sendi Balak aftur hirðmenn af stað, fleiri og virtari en þá fyrri. 16 Þegar þeir komu til Bíleams sögðu þeir við hann: „Svo segir Balak Sippórsson: Láttu ekkert aftra þér frá því að koma til mín 17 því að ég mun launa þér mjög ríkulega og veita þér allt sem þú biður um. Formæltu þessari þjóð fyrir mig.“ 18 Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: „Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli gæti ég ekki gengið gegn fyrirmælum Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru. 19 En nú skuluð þið líka vera hér í nótt. Ég vil vita hvað Drottinn hefur annað að segja mér.“
20 Drottinn kom til Bíleams um nóttina og sagði við hann: „Ef þessir menn eru komnir til að sækja þig skaltu ferðbúast og fara með þeim í fyrramálið. En gerðu það eitt sem ég býð þér.“

Bíleam og asnan

21 Morguninn eftir fór Bíleam á fætur, lagði á ösnu sína og hélt af stað með hirðmönnunum frá Móab.