21. kafli

32 Móse sendi menn til að njósna um Jaser og Ísraelsmenn unnu þorpin umhverfis hana og hröktu á brott Amoríta sem þar voru. 33 Síðan breyttu þeir um stefnu og héldu upp eftir í átt til Basan. Og Basanskonungur fór gegn þeim ásamt öllum her sínum til að berjast við þá í Edreí. 34 Þá sagði Drottinn við Móse: „Óttastu hann ekki því að ég hef selt hann þér í hendur ásamt öllum her hans og landi. Farðu með hann eins og þú fórst með Síhon Amorítakonung sem sat í Hesbon.“
35 Síðan sigruðu Ísraelsmenn hann, syni hans og allan her hans og enginn þeirra komst undan á flótta. En Ísraelsmenn tóku land hans til eignar.

22. kafli

Bíleam og Ísrael

1 Ísraelsmenn héldu af stað og settu búðir sínar á gresjunum í Móab handan við Jórdan gegnt Jeríkó.
2 Balak Sippórsson hafði séð allt sem Ísrael hafði gert Amorítum. 3 Móab óttaðist þjóðina mjög því að hún var fjölmenn og fylltust Móabítar skelfingu gagnvart Ísraelsmönnum. 4 Þeir sögðu því við öldunga Midíans: „Nú mun allur þessi mannfjöldi eta upp allt umhverfis okkur eins og naut rótnaga gras í bithaga.“
Balak Sippórsson var þá konungur í Móab. 5 Hann sendi menn til Bíleams Beórssonar í Petór, sem er við fljótið, [ í landi samlanda hans, til að sækja hann og lét segja við hann: „Þjóð ein er komin frá Egyptalandi. Hún þekur allt landið og nú hefur hún sest að beint á móti mér. 6 Komdu nú hingað og bölvaðu þessari þjóð fyrir mig því að hún er öflugri en ég. Vera má að ég geti þá sigrað hana og rekið hana út úr landinu. Því að ég veit að sá er blessaður sem þú blessar og sá bölvaður sem þú bölvar.“
7 Öldungar Móabs og öldungar Midíans héldu þá af stað og höfðu spásagnarlaun meðferðis. Þegar þeir komu til Bíleams fluttu þeir honum skilaboð Balaks. 8 Hann sagði við þá: „Þið skuluð vera hér í nótt. Síðan skal ég svara ykkur því sem Drottinn segir mér.“ Hirðmennirnir frá Móab voru því um kyrrt hjá Bíleam.
9 Guð kom til Bíleams og spurði: „Hvaða menn eru þetta sem eru hjá þér?“
10 Bíleam svaraði Guði: „Balak Sippórsson, konungur í Móab, sendi þá til mín með þessi skilaboð: 11 Þjóðin, sem fór frá Egyptalandi, þekur nú allt landið. Komdu nú og formæltu henni fyrir mig. Þá get ég ef til vill barist við hana og rekið hana burt.“
12 Guð sagði þá við Bíleam: „Þú skalt ekki fara með þeim. Þú skalt ekki bölva þessari þjóð því að hún er blessuð.“